Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

innlagnir og skaðaminnkun vegna ópíóíðafíknar.

[10:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ítreka þakkir fyrir þessa umræðu hér og þá samstöðu og stuðning sem ég finn fyrir hér í þinginu. Það eru þannig aðstæður uppi og það eru þannig vísbendingar um þetta málefni að það er brýnt og við getum ekki beðið. Það blasir hins vegar við að það þarf líka heildarstefnumótun til framtíðar í málaflokknum. Þessar aðgerðir, raunaðgerðir, snúa einmitt að þessari flýtimóttöku og viðbragðsþjónustu, viðhaldsmeðferðinni sem hefur sannað gildi sitt í samningum við sjúkrahúsið á Vogi. Ég er líka að vinna í því að það verði einn heildarsamningur vegna þess að önnur fíkn hefur verið á samningi sem er 1,4 milljarðar. Svo erum við með þennan einhvern veginn fastan. Þetta er oft þannig að það er blönduð neysla og ég er einmitt að láta skoða þessa þætti, að tryggja aðgengi að gagnreyndri lyfjameðferð. Við þurfum líka að ná til félagasamtaka (Forseti hringir.) og við þurfum að fara í forvarnir og við þurfum að fara í fræðslu (Forseti hringir.) og við þurfum að virkja sveitarfélögin. Við þurfum að fara sameiginlega í þetta átak, það blasir algjörlega við. (Forseti hringir.) Þetta er mikil neyð og þróunin hefur verið neikvæð. Það eru öll gögn sem segja okkur að gera eitthvað hér og nú.