Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna fíkniefnavanda.

[10:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég á eiginlega ekki aukatekið orð, ekki afglæpavæðing eða afnám refsinga, segir ráðherra hérna í svörum við óundirbúnum fyrirspurnum. Það er sífellt verið að leita að einhverjum plástrum á núverandi refsikerfi þegar við vitum að það er fíllinn í herberginu; refsingarnar sem fólk sem á í þessum vanda glímir við, bara hræðsluna við það að verða refsað. Það lagar ekki vandann heldur gerir hann verri ef eitthvað er því að orsök fíknar er ekki efnið. Það eru erfiðleikarnir, það er tómleikinn sem fíknin fyllir upp í. Við múrum ekkert upp í tómleikann og lokum hann á bak við lás og slá og segjum: Nú er málinu reddað. Það virkar einfaldlega ekki þannig. Við þurfum í alvörunni að hugsa þetta aðeins lengra. Við þurfum að horfast í augu við það að þetta stríð gegn dópi, gegn vímuefnum, hefur ekki virkað. Það er ekki hægt að lemja það úr fólki að leita sér einhvers konar sáluhjálpar, í þessu tilviki í einhverjum efnum sem valda vandræðum. Við leysum ekki vandann með því að taka á einkennunum. Við leysum vandann með því að fara í kjarnann, með því að fara í það hvaðan vandinn er sprottinn og hann kemur úr erfiðleikum, yfirleitt úr þessum tómleika sem fólk reynir að fylla upp í, úr skorti á tengslum. Það má alveg horfa á það t.d. hvaða tengslarof urðu til að mynda í samkomutakmörkunum. Við þurfum í alvörunni að horfast í augu við þetta, ekki vera að refsa fólki fyrir vandamál sín heldur hjálpa því.