Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

Áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins.

[11:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir þessa fyrirspurn, sem er umfangsmikil. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir allar þær áskoranir sem blasa við okkur í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að mönnun og fólkinu sem er á bak við það að veita þjónustuna. Það verður áskorun inn í framtíðina. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður dregur hér fram, að við erum að kljást við biðlista víða. Við erum líka að horfa á fjárfestinguna utan um fólkið okkar og kynningin á þessum fyrsta áfanga í uppbyggingunni fól það í sér. Uppbygging heilbrigðiskerfisins, eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól, má ekki vera háð efnahagssveiflum. Velferðarkerfið okkar á ekki að vera háð efnahagssveiflunni. Hins vegar eru í félagsmálahlutanum, eðli máls samkvæmt, svokallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar þegar kemur að bótakerfum og slíku. Uppbyggingin þarf að byggja á langtímahugsun og þessi kynning sneri að því sem tekur mið af breytileika í þjónustuþörfum samfélagsins og nauðsyn þess að nýta okkur tækni, nýsköpun og vísindi til framþróunar og umbóta. Við þurfum einnig að tryggja heilbrigðisstarfsfólki, þeim sem á þjónustunni þurfa að halda og aðstandendum þeirra fyrsta flokks aðstæður. Um það snýst þessi kynning og fyrsti áfanginn. Það er mjög ánægjulegt að við, hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, séum að forgangsraða í þágu uppbyggingar heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir aðhald gegn verðbólgu. Það styrkir innviði heilbrigðiskerfisins og verður dýrmætt til framtíðar í öllu því samhengi sem hv. þingmaður dró ágætlega fram, (Forseti hringir.) í þeim áskorunum sem eru ekki að fara frá okkur.