Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[11:58]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir framsögu fyrir hönd minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Ég vil byrja á því að segja að við getum verið sammála um margt. Ég tek undir þessar áhyggjur varðandi svarleysi, viðbragðsleysi eða getu nefndarinnar til að raunverulega átta sig á því hver afstaða ESA er til málanna. Þetta er verkefni sem ég held að við ættum endilega að reyna að ávarpa með einhverjum ákveðnum hætti — þó að við komumst ekki mikið lengra með það í nefndinni — þegar við fáum skýr svör um það að ESA vilji ekki segja af eða á með það sem við erum að vinna með.

En bara til að hnykkja á því, þá er markmið þessa frumvarps, eins og fram kemur í greinargerð, fyrst og fremst að bregðast við athugasemdum ESA sem komu fram í þessari bráðabirgðaniðurstöðu sem kom þar á undan. Allt er þetta í ferli hjá þeim. En það er líka ríflega tveggja ára gamalt, þetta áminningarbréf sem kemur frá ESA og frumvarpið varð til sem viðbragð við.

Ég vil hnykkja á einu. Hv. þingmanni verður tíðrætt um að hér sé verið að búa til krók fram hjá umhverfismatinu. Það er mín afstaða, enda stend ég að áliti meiri hlutans, að hvað varðar matsskyldar framkvæmdir taki frumvarpið aðeins til tilvika þar sem leyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það þýðir að viðkomandi starfsemi hafi hlotið leyfi á grundvelli umhverfismats að undangenginni lögbundinni málsmeðferð að uppfylltum skilyrðum Umhverfisstofnunar um umhverfismat viðkomandi framkvæmdar. Svo er það fellt úr gildi vegna annmarka. Ég get því ekki fallist á það að í þessu felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Erum við ekki örugglega sammála um að forsenda ákvörðunar hjá opinberum aðilum hlýtur alltaf að vera fullnægjandi umhverfismat áður en ráðist er í framkvæmd?