Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega alltaf spurning hvernig er brugðist við. Ég er nefnilega sammála því markmiði frumvarpsins að bregðast við áliti ESA. Ég er ósammála því að þetta sé rétta leiðin. Á maður að nota myndlíkingu? Ég veit það ekki. Ef einhver segir: Heyrðu, félagi, þú ert að ganga upp á rangan tind, hvort eru rétt viðbrögð við þeirri ábendingu að halda áfram að vaða í villunni eða bara bakka, fara aftur á bílastæðið og keyra heim? Svo var hitt, hvati fyrir framkvæmdaraðila. Mér sýnist nú á orðalagi í nefndarálitinu að við séum ekki að tala um neitt slíkt. En ef fram koma annmarkar á umhverfismati, hvað er það? Það er forsendubrestur. Það er forsendubrestur umhverfismatsins. Mér finnst eðlilegt að fella leyfi úr gildi á grundvelli þess vegna þess að leyfið var veitt á röngum forsendum. Við þurfum ekkert að búa til einhverja ímyndaða stöðu þar sem framkvæmdaraðili hefur fundið hjá sér einhvern hvata — segjum bara að náttúran hafi verið vanmetin í umhverfismatinu á því svæði sem um er að ræða. Segjum að í ljós komi villur, að matsaðili hafi reiknað vitlaust upp úr hlutum og það hafi ekki uppgötvast fyrr en tveimur, þremur árum eftir að starfsemi fór í gang. Að horfa fram hjá þessum annmarka, (Forseti hringir.) að horfa fram hjá forsendubresti framkvæmdarinnar, er ekki fær leið.