Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, eins og hæstv. forseti kom inn á, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sem fjallar um orkuskipti. Ég vil bara byrja á að segja að nefndin fékk til sín talsvert af gestum og bárust sjö umsagnir sem við fórum vel yfir.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á þessum lögum sem eru í þá veru að innleiða hvata til orkuskipta hjá bátum með krókaveiðileyfi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frumvarpið kemur heim og saman við áform stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa stefnt í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslenska flotans frá árinu 2005 til ársins 2030. Sú losun er í dag um 18% af þeirri heildarlosun sem er á beinni ábyrgð Íslands samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Í frumvarpinu er lagt til að veita bátum sem eru styttri en 15 metrar og ná allt að 45 brúttótonnum veiðileyfi með krókaaflamarki noti þeir vistvæna orkugjafa til helminga við hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að bátar sem nota vistvæna orkugjafa séu stærri en sem nemur stærðartakmörkunum gildandi laga, m.a. vegna þess að notkun vistvænna orkugjafa kallar á aukið rými vegna þyngdar, stærðar og lögunar orkugeyma, auk þess sem aukið rými þarf til að vera með fleiri en einn orkugjafa þar sem það á við. Þetta hefur líka m.a. áhrif á öryggi sjómanna og annað slíkt. Það komu fram sjónarmið í nefndinni um hönnun og annað slíkt sem bátar þyrftu og við fengum til okkar aðila sem eru að smíða slíka báta.

Meiri hluti nefndarinnar áréttar að ekki er miðað við brúttótonnahámark í öðrum útgerðarflokkum. Þyngdartakmarkanirnar hefta hönnun skipa og geta dregið úr hvatanum til að ráðast í breytingarnar. Þess vegna fellst meiri hlutinn á þau sjónarmið og leggur til breytingar á frumvarpinu þess efnis að þær falli brott., þ.e. þyngdartakmarkanir.

Í áliti meiri hlutans er lögð áhersla á að horft sé til upprunavottunar þegar kemur að því að skilgreina vistvæna orkugjafa, þ.e. að við framleiðslu slíkra orkugjafa sé ekki notast við óvistvæna grunnorku. Það er mikilvægt að árétta að þetta frumvarp tekur ekki sem slíkt á því heldur er það í höndum umhverfis- og loftslagsráðuneytisins að taka utan um slíkt, þ.e. að finna farveg fyrir upprunavottun orkunnar.

Við erum líka sammála því að það sé skýrt hvaða orkugjafar teljist vera vistvænir. Það kom fram í samráðsgátt og í umsögnum var talað um að kannski þyrfti að geta þess betur hvaða orkugjafa væri átt við þannig að það var sett inn. En það er mikilvægt að halda því til haga að verði kleift að nota aðra orkugjafa en hér eru upp taldir í þessum tilgangi getur ráðherra heimilað það.

Þetta er auðvitað bara eitt af mörgum grænum skrefum sem við þurfum að stíga til að ná markmiðum um orkuskipti í sjávarútvegi, eins og þessi frumvörp sem hér eru undir bera merki. Ég vil bara til að árétta, af því að það er drepið á þessu í nefndaráliti hv. minni hluta, þ.e. það sem ég var að fara hér yfir varðandi orkugjafana sem eru taldir upp og hvort fleiri geti orðið undir, þetta með heimildina þannig að það liggi alveg fyrir. Það er líka ástæða til að taka utan um það að það eru nefndir hér aðrir hlutir, svo sem línuívilnun og dagafjöldi og annað slíkt sem kannski á ekki heima akkúrat í þessu frumvarpi en við höfum átt samtöl um í tengslum við önnur mál og komum til með að eiga það inni í nefndinni í þeim málum sem fyrir henni liggja.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra. Ég legg til að málið verði samþykkt.