Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eitt af því sem var talsvert mikið rætt innan nefndarinnar var einmitt hvaða áhrif þetta hefði á sjóhæfni. Lög um báta og öryggi sjómanna og ýmislegt fleira var þar undir. Þess vegna fengum við til okkar aðila sem höfðu ekki sent inn umsagnir en eru að smíða báta og eru að hugsa um þessa hluti, nákvæmlega hvað þarf að gera til að útbúa skipin með skynsamlegum hætti en þó innan stærðarmarkanna, þ.e. að lengdin ráði för en ekki endilega tonnin. Það komu tveir aðilar til okkar sem fóru mjög vel yfir þetta. Við teljum, í meiri hlutanum a.m.k., eftir að hafa rætt við þá aðila, að það að taka tonnin út en láta lengdina ráða för sé til þess fallið að gera sjóhæfari skip. Það komu fram ýmsar hugmyndir um það hvar hlutirnir gætu verið staðsettir og með hvaða hætti ef þú værir með vetni, ef þú værir með rafhlöðu o.s.frv. Það voru ólík sjónarmið. En allar hugmyndirnar voru í sjálfu sér eitthvað sem þessir sérfræðingar sem við erum að tala við töldu vera þess eðlis að það væri of hamlandi að vera bæði með lengd og tonn undir.