Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að fyrsta skrefið sé að horfa á hvað við getum gert við dreifikerfið okkar og byggðalínuna sem er orðin allt of úrelt. Ef við horfum t.d. á að það er búist við, ef ég man rétt, tæplega 100 skemmtiferðaskipum og ferjum, Norrænu, til Seyðisfjarðar í ár. Ekkert þessara skipa getur tengt sig við rafmagn þegar þau liggja í höfninni í Seyðisfirði sem þýðir að það er verið að dæla út dísilútblæstri þarna allan tímann. Samt erum við með virkjun rétt hjá. Við erum meira að segja með virkjanir, það er önnur smærri virkjun inni í Seyðisfirði, en engar þeirra eru tengdar niður í Seyðisfjörð þó svo að það sé nú ekkert það langt. Ég held að við þurfum að hugsa kerfið okkar og fjárfestinguna okkar í því dálítið betur áður en við byrjum á því að virkja meira vegna þess að það að hafa fullt af orku en nýta hana ekki nógu vel vegna þess að dreifikerfið okkar er 50 ára gamalt og eldra á mörgum stöðum, það held ég að hafi miklu meiri áhrif. En já, við þurfum að tryggja rafmagn, hvort sem það er með betra dreifikerfi eða kannski þarf að virkja eitthvað, við vitum það ekki. Þegar búið er að skoða dreifikerfið þá þurfum við að hafa nægt rafmagn í öllum þessum höfnum.