Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:31]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að taka undir með þingmanninum, ég held að það sé nokkuð augljóst að staðan sé þannig að það þurfi vissulega að vinna hratt en aðalatriðið sé að vinna þetta vel. Þegar þessu var flaggað við okkur í innviaðaráðuneytinu þá var talið að það lægi mjög á og ég held að menn hafi upplifað stöðuna þannig að þeir réðu einfaldlega ekki við ástandið sem vonandi hefur eitthvað aðeins lagast af því að við höfum ekki fundið fyrir svakalegum þrýstingi á að gera þetta þó hraðar en við erum að gera. Þar af leiðandi höfum við fengið tíma til að vanda undirbúninginn og hafa nægt samtal og samráð við aðila og fá upplýsingar frá fagaðilum eins og slökkviliðinu og slíkum aðilum. Engu að síður þá held ég að umfangið á þessum vanda sem við erum að glíma við og áskoranir séu þannig að það sé betra að klára þetta fyrr en síðar. Ég hvet nefndina til þess að gera það auðvitað á þeim hraða sem hún telur sig þurfa til að gera þetta vel og vandlega.

Varðandi umræðuna um í hvaða nefndir einstök mál fara þá held ég að ég fari rétt með að niðurstaðan sé oft í samráði við Alþingi sjálft. Það er ekki ákvörðun sem ráðherra tók að velja sér nefnd. Þannig að ef það kemur upp einhver ágreiningur um það þá er oft gert út um það í þinginu sjálfu og ég hef ekki skoðun á því.