Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka aftur ráðherra fyrir þetta og lýsi því yfir að ég er ekki á móti þessum lögum sem hér hafa komið fram en átta mig á því að þetta er ákveðið neyðarúrræði í þeirri stöðu sem uppi er, með stríð í Evrópu þar sem okkur ber siðferðileg skylda til þess að taka á móti fólki á flótta. Við vitum hverjar aðstæður eru á húsnæðismarkaði, við ræddum það hér í sérstakri umræðu í gær. Þær eru snúnar vegna þess að framboðið er ekki í samræmi við eftirspurn og því er eðlilegt að það sé brugðist við með einhverjum hætti núna.

Vegna þess að hér var rætt um að við ættum að forðast það að fara í fjöldahjálparstöðvar þá verð ég að koma þeirri skoðun minni á framfæri, sem ég hef svo sem rætt áður, að mér finnst ekki óeðlilegt og ég held að það sé til bóta að við séum með sérstakar móttökubúðir, móttökumiðstöð, þar sem við tökum á móti fólki á flótta, þar sem við veitum fyrstu hjálp og fyrstu aðstöðu og ráðgjöf og jafnframt vil ég að við byggjum upp einhvers konar móttökuskóla og hef vísað í það í ræðum hér að við í allsherjar- og menntamálanefnd heimsóttum slíka móttökumiðstöð í Danmörku. Bæði Danir og Norðmenn taka á móti öllum flóttamönnum á einum stað þar sem þessi þjónusta er veitt þar til hægt er að finna önnur úrræði og umsóknir flóttafólks eru komnar áleiðis. Þannig að ég vil bara ítreka það að ég held að við þurfum að huga að því. Það hefur verið rætt svolítið að þörf sé á einhvers konar færanlegu húsnæði eða bráðabirgðahúsnæði til að bregðast við sem lausn. Enn sem komið er hef ég ekki séð tillögur koma hingað inn og ég átta mig hreinlega ekki á hvort við þyrftum á því að halda. Það yrði alltaf að vera í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag og skipulagsyfirvöld og innviðir og annað þyrftu að vera til staðar.

Ég vil bara árétta það og koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég held að það sé skynsamlegt í því hörmungarástandi sem við búum við með stríð í Evrópu að huga að slíkri uppbyggingu og þá líka kannski í tengslum við þá spurningu sem ég lagði fram til hæstv. ráðherra varðandi kostnaðarhliðina á þessu til framtíðar því að það að fjárfesta í færanlegri byggð eða húsnæði — er þá einhver eign sem hægt er að selja eða nýta með öðrum hætti? Ég velti því fyrir mér hvað verður um þessa fjárfestingu sem farið yrði í við að breyta húsnæði þegar stríðinu lýkur og flóttamönnum fækkar. Hvað hefur þá orðið um þann kostnað sem farið hefur í að breyta húsnæði? Það er eitt. En annað er það sem ég kannski bara hef áhyggjur af og vil þar af leiðandi ítreka í þessari umræðu, að það má aldrei fara út í svona aðgerðir nema í góðu samstarfi við viðkomandi sveitarfélag. Hæstv. ráðherra kom vel inn á það og ítrekaði það hér áðan en því miður þá vitum við það að á síðustu misserum hefur Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun farið í það að leigja húsnæði í sveitarfélögum í miklum mæli án þess að sveitarfélagið hafi verið upplýst um það eða sé þátttakandi í því. Við vitum að þetta hefur valdið mikilli kergju. Þetta er mikið álag á sveitarfélögin og kannski skiljanlegt út frá öllum sjónarhornum því að ástandið hefur verið eins og það hefur verið. Ég vona að við séum að ná árangri með því að gera þetta samkomulag við sveitarfélögin um að taka á móti flóttamönnum og ítreka mikilvægi þess að við gerum þetta saman og við gerum þetta vel.

Að því sögðu þá vil ég segja að þessir lagabálkar sem hér eru undir eru flóknir og við höfum oft á tíðum, eða alla vega ég og einhver í mínum flokki, viljað gjarnan finna leiðir til að einfalda þá eins og kostur er. En það verður að viðurkennast að skipulagsvald sveitarfélaganna er svakalega mikilvægt. Það þarf að horfa svolítið fram í tímann og þess að ef tekið er atvinnuhúsnæði sem er ekki nálægt annarri byggð og öðrum innviðum, sem nýttir eru til að þjónusta íbúa, og þessu húsnæði er breytt í byggð hver pressan verður síðar meir að það verði þannig til framtíðar. Þarna tínist til ýmis kostnaður fyrir sveitarfélag; sorphirða er eitt, brunavarnir eru annað, almenningssamgöngur, skólaakstur, félagsþjónusta fatlaðra. Allir þessir þættir skipta máli og allir þessir þættir og fleiri til eru það sem sveitarfélögin horfa á þegar þau eru að gera sitt aðalskipulag, hvernig þau skipuleggja landið sitt sem best með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og ekki síður hagkvæmni í rekstri. Þannig að það er mikilvægt að við gerum þetta í góðu samstarfi við sveitarfélögin sem eiga svo mikið undir.