Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég held að komandi kynslóðir muni þakka þeim þingmönnum sem standa vörð um lífríki sjávar og smábátaútgerð og horfa til þess að við höfum fjölbreytni í útgerðarmynstri á Íslandi sem styrkir litlu sjávarbyggðirnar um land allt. (IngS: Raunverulegir náttúruverndarsinnar.) Þá má ekki kalla hlutina öðrum nöfnum en raunveruleikinn er.

Orkuskipti eru frábær, allir eru að vinna í þá átt. En eyðileggjum ekki eitthvað samfara sem er ekki umhverfisvænt að gera. Það er það sem mér finnst vera í þessu máli. Ég held að allir verði að sýna því þá virðingu sem því ber að taka mark á því sem kemur í gagnrýni á þetta mál.

Auðvitað má spyrja sig út af hverju SFS eru ánægð með þetta og þessi stærri. Hvers vegna eru Landssamband smábátaeigenda og litlir einyrkjar sem sendu umsagnir óttaslegnir um afleiðingarnar? Það hefur verið barátta um þetta krókaaflamarkskerfi í fjölda ára. Það var ákveðin sáttamiðlun við kvótasetningu og framsal að til hliðar væri hluti af úthlutuðum aflaheimildum á Íslandsmiðum til smærri báta sem gerðu út á umhverfisvænar veiðar og væru fyrst og fremst að stunda veiðar nærri landi og hefðu ekki möguleika til að fara út á haf.

Núna er verið, hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki, að ýta undir enn frekari samþjöppun og enn frekari öflugar togveiðar innan 12 mílna án þess að það sé búið að rannsaka lífríkið, áhrif á botninn, botn sjávar, uppvöxt seiða eða neitt. Hver er skaðinn? Komum í veg fyrir skaðann með því að láta rannsaka þetta áður en við tökum ákvarðanir í þessum málum.