Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fá að þakka fyrir umræðuna í dag í þessu máli. Ég vil árétta það, af því að hér voru Ungir umhverfissinnar nefndir, að þeir skiluðu ekki umsögn í þessu máli. En þeir gerðu það sannarlega í málinu sem við vorum að fjalla um hér á undan og voru almennt ánægðir með það mál.

Síðan vil ég líka segja að í umsögn Landverndar um þetta mál hvetja þeir nefndina til að fara vel yfir þann þátt málsins sem hér hefur verið til umræðu. Ég tel að við höfum gert það.

Ég vil líka árétta það að svörin sem bárust frá Hafrannsóknastofnun og matvælaráðuneyti varðandi þetta mál, þar var svarað þeim spurningum sem sneru að þessu máli. Sannarlega má segja um málið sem við komum að næst að þar hafi skort upp á svör um eitt og annað. En í þessu máli var það svo að þeim spurningum sem bornar voru fram skriflega eftir fund nefndarinnar með þeim umsagnaraðilum og öðrum sem komu á fundinn, þeim var svarað. Ég vildi árétta þetta. Við fjöllum áfram um þetta í nefndinni í framhaldinu.

Svo verð ég að gera það sem ég gerði áðan, af því að ég gleymdi að segja hverjir stæðu að þessu nefndaráliti. Það er sú sem hér stendur og hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Hanna Katrín Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Tómas A. Tómasson og Þórarinn Ingi Pétursson.