Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig með nýsköpunarstyrki og annað að þeir eru ágætir til þess að búa til fyrsta sýnishornið um að eitthvað sé hægt, en eitt stærsta vandamálið í nýsköpun og ástæðan fyrir því að flest nýsköpunarfyrirtæki deyja er að þau kunna ekki að skalast upp frá því að geta leyst eitthvert lítið mál á Íslandi yfir í að geta leyst það út um allan heim, frá því að geta leyst það fyrir einn eða geta leyst það fyrir alla. Þar held ég að við þurfum að passa okkur. Við tökum skrefin en eigum ekki að láta þar við sitja heldur vera mjög öflug í því að fara af stað í þessa vegferð. Þegar kemur að því að sannfæra fólk þá verður að blanda saman jákvæðum og neikvæðum hvötum. Neikvæðir hvatar verða að vera þeir sem ýta mönnum í áttina að því að fara yfir í hreyfinguna og breytingarnar. Það hefur sýnt sig að mjög fáir taka skrefið ef einungis eru jákvæðir hvatar af því að það er svo erfitt að fara úr núinu og því hvernig þú ert, jafnvel þótt þú vitir að þetta sé betra fyrir loftslagið, sé ódýrara og að þú fáir meiri afla. Það er nú bara þægilegt að sigla á bátnum sem þú þekkir og hefur siglt á. Við sjáum að fólk er að keyra rafmagnsbíla og margir eru jafnvel að spá í að skipta aftur yfir í eitthvað annað af því að þeir hafa lent í alls konar vandræðum, verða rafmagnslausir á Reykjanesbrautinni og það er ekkert hægt að draga bílinn heldur þarf að fá bíl sem lyftir honum upp og fer með hann. (Forseti hringir.) Þetta snýst um hvernig við förum frá alls konar svona hlutum og þar þurfum við neikvæðu hvatana. Þeir eru miklu öflugri í að ýta okkur í rétta átt.