154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fyrir að minnast á Opcat-eftirlitið. Eins og hæstv. ráðherra er kunnugt þá var niðurstaða þess eftirlits, held ég, í öllum þeim tilvikum þar sem farið hefur verið í úttekt á aðstæðum fólks sem er frelsissvipt vegna geðraskana, á þann veg að ekki sé lagaheimild fyrir ýmissi nauðung sem þar er beitt. Því miður hefur ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra brugðist við með því að ákveða að reyna að skella lagastoð undir þá nauðung sem beitt er í stað þess að reyna að vinda ofan af því kerfi sem beitir fólk nauðung, þvingunum og ofbeldi.

Mig langar til að beina spurningu til hæstv. ráðherra. Það er alveg ljóst að þegar einstaklingar eru ekki í aðstæðum og ekki í nokkru ástandi til að bera hönd fyrir höfuð sér, þegar þeir eru beittir órétti og ofbeldi og valdbeitingu, er gríðarlega mikilvægt að kerfið tryggi réttindi þessara einstaklinga. Við eigum ekki öll aðstandendur sem eru til staðar til að berjast fyrir réttindum okkar þegar við getum það ekki. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að bæta inn í þessa fjármálaáætlun embætti umboðsmanns sjúklinga.