154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlun er stefnumarkandi áætlun um hvernig ráðuneytin hyggjast verja fjárheimildum málefnasviða með sem árangursríkustum hætti fyrir samfélagið. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviðunum dómstólar, almanna- og réttaröryggi og réttindi einstaklinga, en þau tvö fyrrnefndu heyra að litlum hluta undir forsætisráðuneytið. Meginbreytingar á rekstrarútgjaldarömmum málefnasviða dómsmálaráðuneytisins á áætlunartímabilinu skýrast aðallega af breytingum framlaga vegna aðhaldskröfu og tímabundinna útgjalda, svo sem kosninga, auk nokkurra viðbótarframlaga sem gerð er frekari grein fyrir í umfjöllun um málefnasviðin hér á eftir.

Ég ætla að byrja á því að nefna sérstaklega dómstólana en heildargjöld þess málefnasviðs lækka um 60 milljónir á áætlunartímabilinu vegna sértækra aðhaldsráðstafana en að öðru leyti helst útgjaldaramminn óbreyttur út áætlunartímabilið. Umræddar aðhaldsráðstafanir, sem hér eru boðaðar á árinu 2026, 2027 og 2028, kalla á nánari greiningu sem verður framkvæmd með dómstólasýslunni. Það eru ýmis tækifæri til umbóta hjá dómstólunum og ber þar helst að nefna stafræna vegferð þeirra með upptöku stafrænnar málsmeðferðar og þróunar stafrænna lausna. Auk tækifæris til hagræðingar skapar umrædd vegferð jafnframt farveg fyrir greiðari málsmeðferð, styttri málsmeðferðartíma og aukna hagkvæmni mála. Þá skapast ákveðin tækifæri í sameiningu héraðsdómstóla landsins í einn sem er fyrst og fremst til þess fallið að styrkja starfsstöðvar á landsbyggðinni, ná fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og stuðla að því að bæði fjárframlög og mannauður dómstólanna nýtist sem best.

Þá er það almanna- og réttaröryggi en rekstrarframlög málefnasviðsins haldast nokkuð óbreytt frá gildandi fjármálaáætlun 2024–2028. Auknum rekstrarframlögum er varið í tvö ný verkefni, annars vegar 700 millj. kr. til Landhelgisgæslunnar á árinu 2025 og 2026 og hins vegar 145 millj. kr. til styrkingar almannavarna sem er varanleg viðbót. Þá er gert ráð fyrir því að byggt verði nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns og er áætlað að verja 12,6 milljörðum á áætlunartímabilinu til þess verkefnis. Nú þegar hefur 1,8 milljörðum verið varið til verkefnisins. Að öðru leyti skýrist breyting fjárfestingarframlaga af uppfærslu áætlana vegna framkvæmda við höfuðstöðvar viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu sem hliðrað er í tíma.

Löggæsla og ákæruvald: Á árinu 2023 var samþykkt að auka varanlegar fjárheimildir til þess að efla viðbragð lögreglu og ákæruvalds gegn skipulagðri brotastarfsemi. Lögð hefur verið áhersla á að efla rannsóknargetu lögreglu þegar kemur að umfangsmiklum málum. Komið hefur verið á fót sérstökum rannsóknarteymum sem starfa undir forræði stýrihóps um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Einnig er gert ráð fyrir að skráning, greining og miðlun upplýsinga sem varðar skipulagða brotastarfsemi og brotahópa verði efld. Þá er gert ráð fyrir að alþjóðlegt samstarf á þessu sviði verði eflt en skipulögð brotastarfsemi kallar á mun nánari samvinnu og samstarf við erlend lögregluyfirvöld.

Unnið er að heildarendurskoðun laga um almannavarnir. Þegar ný lög um almannavarnir hafa verið sett standa væntingar til þess að þau renni frekari stoðum undir skýrt hlutverk, ábyrgð og skyldur allra sem starfa í almannavarnakerfi landsins. Þannig verði almannavarnakerfi landsins sem best í stakk búið til að takast á við hvers konar vá.

Þá eru það málefni Landhelgisgæslunnar en Landhelgisgæslan er flaggskip okkar Íslendinga og mikilvægt að standa vörð um rekstur hennar. Í fyrirliggjandi fjármálaáætlun er það svo sannarlega gert, enda er gert ráð fyrir 700 millj. kr. viðbótarframlagi í rekstur Gæslunnar árið 2025 og 2026. Áhersla hefur verið lögð á það síðustu ár að styrkja tækjabúnað Gæslunnar en nú þarf að rýna betur rekstur Gæslunnar og finna þar tækifæri til hagræðingar. Eru því til skoðunar niðurstöður starfshóps sem skipaður var til að rýna í rekstur Landhelgisgæslunnar til grundvallar heildarstefnumótun í málaflokknum og hvaða umbóta það gæti leitt til á tímabilinu. Verulegar kostnaðarhækkanir hafa orðið í rekstri stofnunarinnar og til að mæta þeim hafa fjárheimildir vegna áranna 2025 og 2026 verið hækkaðar frá síðustu fjármálaáætlun.

Fullnustukerfið: Starfsemi fangelsanna í landinu var styrkt til muna með auknum framlögum á fjáraukalögum 2022 og fjárlögum 2023. Þá hefur aðhaldskrafa til málaflokksins verið felld niður varanlega á tímabili fjármálaáætlunar. Með fyrirhugaðri stækkun fangelsisins á Sogni fjölgar fangelsisrýmum þar um 14 og með nýju fangelsi í stað Litla-Hrauns er gert ráð fyrir að rýmum þar muni fjölga um 17. Í tengslum við byggingu á nýju fangelsi er verið að vinna að greiningu á því hversu mörg viðbótarrými þarf til að kerfið geti orðið sjálfbært. Fyrstu vísbendingar gefa til kynna að með fyrirliggjandi fjölgun fangelsisrýma verði hægt að mæta meðalþörfinni síðustu 14 árin en lítið ávinnist í að ná niður biðlistum og mæta vararefsingu.

Þá eru það réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins, en útgjaldarammi málefnasviðsins helst að mestu óbreyttur frá fjármálaáætlun 2024–2028. Undanfarin misseri hefur verið lögð mikil áhersla á stafrænar lausnir hjá sýslumönnum fyrir málsmeðferð og hafa sýslumannsembættin unnið náið saman að framþróun á flestum sviðum starfseminnar. Með vinnunni er verið að bregðast við aukinni eftirspurn almennings um bætt þjónustuframboð og skilvirkari stjórnsýslu. Framþróun leiðir af sér breytt hugarfar, svo sem stjórnsýsluframkvæmd, og henni fylgja ýmis tækifæri og áskoranir, svo sem fyrir skipulag embættanna, reksturinn og starfrækslu verkefna.

Þá ætla ég að koma inn á útlendingamálin. Fyrir liggur að heildarkostnaður útlendingamála hefur aukist úr rúmlega 3 milljörðum árið 2016 í 20 milljarða 2023 og stefnir í 25 milljarða á þessu ári að öllu óbreyttu sem er hlutfallslega margfalt það sem við erum að sjá á hinum Norðurlöndunum. Með breytingum á lögum um útlendinga, sem samþykkt voru á Alþingi 15. mars 2023, breyttist málsmeðferð endurtekinna umsókna og réttindi hjá þeim útlendingum sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn voru felld niður. Eftir standa séríslenskar reglur sem gera þarf breytingar á svo að meðferð umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi verði betur í samræmi við lagaumgjörð og framkvæmd, einkum á hinum Norðurlöndunum. Ríkisstjórnin sammæltist í febrúar um heildarsýn í útlendingamálum og markmiðið er að fækka umsóknum, hraða málsmeðferðartímanum og auka brottflutning þeirra sem fengið hafa synjun.