154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tel mig þó þurfa að ítreka aðra spurningu mína sem varðaði það hvort verið væri að vopna lögregluna í sparnaðarskyni. Það kemur skýrt fram í fjármálaáætlun að einn helsti kostnaðurinn við rekstur lögreglu er launakostnaður og tónninn í fjármálaáætluninni er sá að tregða sé til að fjölga lögreglumönnum um of. Þá vaknar sú spurning hvort þetta sé leiðin sem ákveðið er að fara fremur en að kalla eftir fjölgun lögreglumanna, sem er það sem lögreglan hefur fyrst og fremst verið að kalla eftir um árabil til að hún geti sinnt störfum sínum, upplifað sig örugga í starfi. Lögreglan hefur kallað eftir fjölgun lögreglumanna, hefur kallað eftir aukinni þjálfun.

Það er eðlilegt að valdhafar vilji frekari völd til að upplifa sig örugga. En það er auðvitað ekki til þess fallið að auka öryggi almennra borgara. Lögreglan hefur sannarlega ekki einungis það hlutverk að bjarga og aðstoða almenna borgara, heldur eru það almennir borgarar sem lögreglan beitir valdi sínu gegn, (Forseti hringir.) það eru líka borgarar.

Mig langar til að ítreka þessa spurningu: Er verið að (Forseti hringir.) vopna lögregluna í sparnaðarskyni? Ég spyr hvort hæstv. ráðherra telji (Forseti hringir.) að aukin — ég ætla kannski að leggja áherslu á rafvarnarvopnin, rafbyssurnar. Það hefur verið aðalsmerki íslenskrar lögreglu um árabil að hún hefur verið óvopnuð og þannig hefur myndast gríðarlega mikið traust til lögreglunnar á Íslandi. (Forseti hringir.) Ég spyr ráðherra hvort hún telji þessa þróun til þess fallna að auka traust almennings, alls almennings, til lögreglu.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka við hv. þingmenn að virða ræðutímann.)