154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fram til þessa hefur ekki verið mikil umræða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um æskuna og frið og öryggi. Aðalframkvæmdastjóri hefur í þriðju skýrslu sinni um aðkomu æskunnar að friðarmálum m.a. lagt til að efna til árlegrar umræðu um æsku, frið og öryggi. En Norðurlöndin hafa sannarlega nýtt þau fáu tækifæri sem gefist hafa til að taka þátt í umræðum um þetta málefni. Það eru væntingar um að þetta horfi til betri vegar, þ.e. þegar sáttmálinn um framtíðina verður að veruleika á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna síðar á þessu ári, í haust. En samningaviðræður um sáttmálann eru á byrjunarstigi og þar liggja fyrir markvissar tillögur um þessi mál. Við hér á Íslandi, utanríkisþjónustan, munum í samvinnu við önnur Norðurlönd leitast við að slíkar áherslur fái sannarlega brautargengi í þessu ferli. Þegar rætt er um framtíðina á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gef ég mér að þar verði frekari þungi á ungmenni, frið og öryggi en á ýmislegt annað. Þar munum við ekki láta okkar eftir liggja og vinna það í samvinnu við Norðlöndin.