154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar um hryllilega stöðu á Gaza. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað kallað eftir því að allar vísbendingar um brot á alþjóðalögum í átökunum sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs verði rannsakaðar. Í því samhengi hafa fjárframlög til Alþjóðlega sakamáladómstólsins verið aukin sérstaklega en yfirstandandi rannsókn saksóknara hans í Palestínu nær einnig til átakanna sem nú geisa og allra þeirra alþjóðaglæpa sem stríðandi fylkingar kunna að hafa framið.

Hv. þingmaður nefndi sex bráðabirgðaráðstafanir sem beinast til Ísraels og ítreka skuldbindingar samkvæmt hópmorðssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er því beint til Ísraels að gera það kleift að íbúum Gaza verði veitt nauðsynleg grunnþjónusta. Við höfum í framhaldi af því hvatt til þess að því sem segir í þessum bráðabirgðaúrskurði verði framfylgt. Alþjóðalögum fylgja mjög rík réttindi og gríðarlega mikilvæg sem eiga að halda þegar allt annað bregst. En alþjóðalögum fylgja líka skyldur og þessar skyldur eru jafn heilagar og réttindin sem þeim fylgja. Við gerum ríkar kröfur til ríkja um að halda sig innan alþjóðalaga. Og það að meina aðkomu að neyðaraðstoð inni á svæði er eitthvað sem á ekki að geta haldið og verður að stöðva. Það að horfa upp á það eða stuðla að því að börn og fólk verði hungurmorða — það er nokkuð ljóst hvorum megin línunnar það fellur. (Forseti hringir.) Og aftur skiptir það máli að alþjóðalögum fylgja ekki eingöngu þessi réttindi heldur líka heilagar skyldur.