132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:09]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ekki hefur verið skoðað hvort samráð á sér stað um verðlagningu á leiguheimildum á markaði. Samt fullyrðir hæstv. ráðherra að ekki sé um samráð að ræða þó að verðið sé í flestum tilfellum það sama, alveg sama hver það er sem hefur milligöngu um viðskiptin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Veit hæstv. ráðherra hve margir hafa milligöngu um viðskipti á leigukvóta? Eins langar mig að spyrja hann: Telur ráðherra að hægt sé að gera út fiskiskip með því að leigja kvóta á því verði sem nú gildir í þessum nytjategundum okkar og fara um leið að öllum lögum og reglum sem um þennan iðnað gilda en ná samt sem áður að gera út þannig að ekki sé halli á þeirri útgerð? Hefur ráðherra hugmynd um hvernig samsetningin er á þeim bátum sem gera út á leigukvóta, samsetning á fiski, stærð og annað því um líkt, og hvort hún er öðruvísi á þeim bátum en bátum sem eru með eigin kvóta? Hvað varðar leigumarkaðinn þá hefur hann að sjálfsögðu öll svæsnustu einkenni seljendamarkaðar, alveg sama í hvaða föt menn reyna að klæða hann. Þessi markaður er, hefur verið og mun verða, að óbreyttu kerfi, eingöngu seljendamarkaður.