132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi Guðjón Arnar Kristjánsson fór ágætlega yfir sviðið hér áðan í upphafsræðu sinni og ég held að það dyljist engum sem hlustaði á mál hans að þessi mál eru hreinlega í tómu tjóni og það þarf að skera þetta kerfi upp. Þetta er orðið allt of flókið, stjórnsýslan er farin að lifa fyrir kerfið en ekki öfugt og það er eitthvað mikið að þegar það skortir stórkostlega fjármuni á hverju ári til þess að bæta hér úr. Það þarf að ráða fleira fólk, það þarf stöðugt að endurnýja tölvukerfi, endurbæta tölvukerfi fyrir tugmilljónir króna á hverju ári til þess að ráða við kerfi sem virðist vera farið að vaxa yfir allar þorpagrundir, er orðið svo flókið að manni dettur helst í hug að mannlegur máttur ráði hér engu um, þetta er orðið eins og vísindaskáldsaga, hrollvekja. Þá er eitthvað mikið að og þá er kominn tími til að skera kerfið upp.

Við hljótum að hvetja hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til þess að sjá til þess að farið verði í þá vinnu að einfalda þetta kerfi. Skerðingarákvæðin eru til að mynda mjög ósanngjörn og þau halda öldruðum og öryrkjum við fátæktarmörk og þetta er okkur til skammar. Við í Frjálslynda flokknum höfum sex sinnum á jafnmörgum þingum lagt fram lítið frumvarp sem gengur út á að fólk skuli hafa tryggan lágmarkslífeyri.

Hér var talað um að fjármagnstekjur hefðu orðið til þess að fólk hefði verið krafið um að greiða til baka tryggingabætur, fjármagnstekjur. Í Noregi getur fólk haft fjármagnstekjur þó að það sé öryrkjar eða aldraðir og það skerðir ekki lífeyrisrétt þeirra. Þetta ýtir til að mynda mjög undir sparnað hjá fólki, að fólk spari til mögru áranna.

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að kynna sér hvernig reglurnar eru í Noregi því ég hygg að þær gætu orðið okkur fyrirmynd að nýju og réttlátara kerfi.