132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vatnsafl og álframleiðsla.

650. mál
[19:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við skulum ekkert vera að æsa okkur yfir þessu. Málið er einfaldlega þannig að þessa ræðu hélt ég ekki á iðnþingi (KolH: Hvar þá?) sem vitnað er til. Ég hélt hana aldrei. (MÁ: Hélstu aldrei ræðuna?) Ég hélt aldrei þessa ræðu. Það hefur sama ræðan verið inn á vef ráðuneytisins allan tímann. Ef hún er ekki lengur inn á vefnum þá veit ég ekki hvað hefur gerst. Hún var þar síðast þegar ég athugaði það.

Það er ræðan sem ég flutti á þessu margumtalaða iðnþingi. Þannig er þetta. Það er ósatt sem hefur verið sagt, bæði af hálfu þessa rithöfundar og eins hér af hálfu hv. þingmanns, að ég hafi flutt ræðu á iðnþingi þar sem ég hafi talað um eina milljón tonna.

Hins vegar er það rétt að í framhaldi af því iðnþingi áttu fjölmiðlar við mig viðtöl og þá lét ég orð falla sem eru rétt eftir mér höfð hérna, að þegar það væri komið í milljón tonn þá vil ég fara að spyrna við fótum. Ég get alveg staðið við að það verður ekki endalaust haldið áfram að framleiða ál á Íslandi.

Mér finnst þetta vera óþarfaumræða. Hvort þetta eru 30 eða 26 teravattstundir eða hvað það er í vatnsafli. Þetta eru ákveðin fræði. (Gripið fram í.) Hins vegar er allt annað mál hvað við viljum nýta af þessu vatnsafli. Að sjálfsögðu viljum við ekki nýta allt það vatnsafl sem tæknilega er hægt að nýta. Við viljum ekki nýta það allt út af umhverfisástæðum. Þetta er ekki spurning um hvað stendur í einhverri bók.

Þar að auki get ég sagt hæstv. þingmanni að ég hef aldrei komið til Ástralíu og veit ekkert hvað hefur verið lagt þar á borð. En þetta er ekki þannig að það sé búið að ákveða einhverjar 30 teravattstundir og síðan ætli ríkisstjórnin að halda áfram þangað til það sé komið upp í 30 teravattstundir. Þetta er ekki svona og það hljóta hv. þingmenn að vita. Auðvitað er þetta ekki svona. Þetta er tala sem kemur upp og ég fór yfir í ræðu minni hvernig hún varð til.

En það er allt annað mál hvað ríkisstjórnin sem nú situr telur rétt — og svo koma náttúrlega einhvern tíma aðrar ríkisstjórnir — að nýta af þessu vatnsafli. Ég geri mér fulla grein fyrir að það (Forseti hringir.) verður numið staðar áður en við komum að viðkvæmustu stöðunum.