135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:44]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að taka þetta mál hér upp til umræðu, kjör lífeyrisþega, og það er mikilvægt að við ræðum þau hér á þinginu. Á stuttum tíma getur ríkisstjórnin fagnað mörgum góðum áföngum og verkum sem hún getur verið stolt af sem snúa að lífeyrisþegum en betur má ef duga skal.

Auðvitað er eðlilegt að lífeyrir aldraðra og öryrkja fylgi þróun lægstu launa í landinu. Auðvitað er eðlilegt að aldraðir og öryrkjar horfi til 18 þús. kr. hækkunar lægstu launa og sinna eigin kjara. Það er mikilvægt að sú nefnd sem nú mun skila tillögum á vegum félagsmálaráðherra um lífeyrisgreiðslur hinn 1. júlí nk. tryggi að í þeim sé að finna eðlilegar kjarabætur til þessa hóps enda sér hver maður það að 7% kjarahækkun dugar skammt í 11% verðbólgu. Nú þegar liggur það fyrir af þeirri ástæðu að frekari hækkanir munu koma til þessara hópa en orðið er. Enda var það stefna beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, í alþingiskosningum fyrir innan við ári síðan og eitt af brýnustu verkefnunum á þessu kjörtímabili, að bæta kjör lífeyrisþega.

Þau skref sem þar hafa verið stigin og eru hvað mikilvægust eru auðvitað þau að afnema tengingar við tekjur maka. Það skapar líka öldruðum og öryrkjum frelsi til sjálfshjálpar að létta af þeim tekjutengingum sem báðir flokkar hafa árum saman barist fyrir. Það er nú orðið að veruleika að lífeyrisþegum er ekki lengur refsað fyrir sparnað. Auk þess koma hækkanir á skattleysismörkum, sem eru fram undan, öryrkjum og (Forseti hringir.) öldruðum til góða. En ég tek undir þau sjónarmið að eðlilegt sé (Forseti hringir.) að kjör aldraðra og öryrkja fylgi lægstu launum í landinu.