135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram því hún er nauðsynleg. En ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með framgöngu forsætisráðherra í ræðustól áðan.

Við erum að tala um þá þjóðfélagshópa sem hafa lægstu kjörin í samfélaginu, hópa sem höfðu miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar sem talaði mikið um að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Fólk átti því ekki von á að ríkisstjórnin mundi fara fram með þeim hætti sem hún hefur gert, þ.e. að lækka viðmið á kaupi og kjörum þessara stétta í tengslum við gerð kjarasamninga.

Voru það ekki réttmætar væntingar eldri borgara og öryrkja til nýrrar ríkisstjórnar að hún léti nú ekki svo lítið að lækka ekki viðmiðið sem gert var árið 2006? Nú segir forsætisráðherra að það sem gert hafði verið í fortíð sé engin ávísun á það sem gera á í framtíð. En það er staðreynd að það hafa verið gefin mikil loforð um að bæta kjör þeirra sem hafa hvað lægstu kjörin á Íslandi í dag. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita þessum hópum 7,3% hækkun í kjarasamningum þeirra.

Hver var verðbólgan síðasta árið? 11–12%. Síðustu þrjá mánuði er verðbólgan 28% og því spyr ég: Eru þetta breiðu bökin í samfélaginu sem eiga að þola kjaraskerðingu?

Þegar hæstv. forsætisráðherra, sem við framsóknarmenn áttum svo ágætt samstarf við í ein tólf ár, fer að minna á fortíð Framsóknarflokksins í þeim efnum þá skal ég alveg upplýsa það hér kinnroðalaust að ekki voru þær allar farnar til fjár ferðirnar sem ráðherrar Framsóknarflokksins fóru til ráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar þeir héldu utan um fjármálaráðuneytið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið utan um fjármálaráðuneytið í 17 ár og ég hafna þeim dylgjum (Forseti hringir.) að framsóknarmenn hafi staðið sérstaklega í vegi fyrir því að (Forseti hringir.) bæta kjör aldraðra og öryrkja í gegnum tíðina. (Forseti hringir.) Ég hafna því.