136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að sérstaklega var eftir því óskað af hálfu ýmissa ræðumanna í gær að ég kæmi og léti í ljós álit mitt á því frumvarpi sem liggur fyrir. Ég get gert það í fáum orðum. Ég er sammála öllu því sem kemur fram í frumvarpinu og styð það heils hugar. Satt að segja hélt ég líka að í því væri að finna ákvæði sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gætu líka stutt heils hugar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson ræddi frumvarpið nokkuð í gær. Ég lýsti þá þeirri skoðun minni að ég teldi það undarlegt miðað við hið ágæta samstarf sem ég hef átt með þeim ágæta þingmanni að stjórnarskrárbreytingum í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra sem starfaði um tveggja ára skeið. Ég veit ekki betur en að ég og hv. þingmaður höfum þá verið sammála um ýmsar meginbreytingar sem einmitt er að sjá stað í því frumvarpi sem fyrir liggur. (StB: Það er búið að hrekja þetta.)

Hv. þm. Sturla Böðvarsson segir að búið sé að hrekja það. Ég hef ekki heyrt þann hrakning. Miklu frekar hef ég heyrt að hv. þingmaður sem reyndi að gera grein fyrir afstöðu sinni í því máli hafi hrakist undan, og það er sjálfsagt að fara yfir það mál, frú forseti.

Það er einfaldlega staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst með einum eða öðrum hætti fylgi við ýmis af þeim ákvæðum sem koma fram í frumvarpinu. Í 1. gr. frumvarpsins er einmitt fjallað um það að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu skuli vera þjóðareign. Hvaðan skyldi það hugtak vera komið? Það er komið frá einum þeim manni sem hefur verið mestur hugsuður Sjálfstæðisflokksins á síðustu áratugum. Þetta hugtak varð til í starfsemi auðlindanefndar sem ef ég man rétt skilaði af sér í kringum árið 2000 og var undir forustu Styrmis Gunnarssonar ritstjóra. Þar var með mjög sterkum rökum skýrð út nauðsyn þess að færa þetta hugtak inn í stjórnarskrána. (Gripið fram í: Hann var ekki formaður í þessari nefnd.) Hann var alla vega mestur hugsuður í þeirri nefnd og hann lagði fram rökin í nefndinni fyrir hugtakinu þjóðareign. Það er Styrmir Gunnarsson ritstjóri sem hefur sannfært marga, þar á meðal mig, með hnífskörpum skrifum um þetta, að nauðsynlegt sé að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrána.

Á sínum tíma var þetta töluvert rætt í stjórnarskrárnefnd þar sem ég sat ásamt þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, og þeim hv. þm. Birgi Ármannssyni og Bjarna Benediktssyni. Ég var í stjórnarandstöðu þá. Sjálfstæðisflokkurinn var eins og hann var um 18 ára skeið í forustuhlutverki í ríkisstjórninni. Það er sennilega bara þess vegna sem hv. þm. Bjarna Benediktssyni var falið forustuhlutverk við að ræða þetta sérstaklega, þ.e. ákvæði sem lutu að þjóðareign á auðlindum. Það var sérstakur starfshópur sem í sjálfu sér hafði enga formlega stöðu fremur en þeir aðrir tveir eða þrír starfshópar sem settir voru til verka undir stjórnarskrárnefndinni, en hv. þm. Bjarni Benediktsson leiddi einn þann hóp. Sá hópur fjallaði einmitt um þetta mál.

Skemmst er frá því að segja að við nutum einmitt sérfræðilegrar verkkunnáttu Bjargar Thorarensen prófessors sem var starfsmaður starfshópsins. Hún ritaði fundargerðir. Hún dró sömuleiðis saman niðurstöður sem sendar voru öllum þeim sem í starfshópnum störfuðu. Þar voru fyrir utan mig og hv. þm. Bjarna Benediktsson m.a. sá ágæti maður sem einna mest hefur talað um sjávarútvegsmál í sölum Alþingis, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson.

Það kunna að vera tíðindi en þessir þrír einstaklingar urðu sammála. Þeir voru sammála um að setja ætti inn í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Þar ræddu menn sérstaklega um auðlindir sjávar. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem hefur flækst undan í flæmingi þegar frá þessu hefur verið greint og hefur núna uppi einhverja allt aðra skoðun, var einfaldlega sammála þessu. Það er til skriflegt að hv. þingmaður gerði engar athugasemdir við niðurstöðurnar né heldur þær þrjár eða fjórar fundargerðir sem teknar voru saman um þetta.

Hins vegar er alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að þessi hugmynd var lögð inn í stjórnarskrárnefnd og þar vildu menn gera á því ákveðna úttekt, hagfræðilega og stjórnsýslulega úttekt með hvaða hætti útfærsla á ákvæðinu kynni að hafa áhrif á ýmsar atvinnugreinar. Það er alveg hárrétt og ég vil ekki halda nokkru öðru fram.

Það breytir ekki hinu að leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins komst að efnislegri niðurstöðu sem var hin sama og er að finna í 1. gr. þessa frumvarps. Frá því getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki hlaupið. Það setur honum í sjálfu sér engar sérstakar skyldur á herðar með að samþykkja endilega þetta tiltekna frumvarp. En hann getur ekki komið hingað og haldið því fram að ekki hafi verið haft samráð við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Herra trúr. Það var haft svo mikið samráð að niðurstaðan varð nánast til undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Þetta skiptir máli.

Fram hefur komið hvað eftir annað af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það sem þeir hafa helst gegn frumvarpinu er að ekki hafi verið haft samráð við Sjálfstæðisflokkinn. Ég undirstrika hins vegar að fyrir utan það ákvæði sem lýtur að stjórnlagaþingi liggja fyrir yfirlýsingar þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem meira og minna falla í sama farveg og hinar greinarnar þrjár sem er að finna í frumvarpinu, fyrir utan þetta ákvæði um þjóðareign á auðlindum sem er margrætt í þessum sölum og margrætt var af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni, þá er hér um að ræða ákvæði sem gerir ráð fyrir því að tiltekinn fjöldi Íslendinga geti krafist þess að sett verði í þjóðaratkvæðagreiðslu tiltekið lagafrumvarp eða tiltekið málefni. Er þetta nýtt fyrir Sjálfstæðisflokknum? Er hann að koma að umræðu um þetta í fyrsta skipti? Ó-ekkí. Í stjórnarskrárnefndinni voru dregnir saman bunkar af gögnum sem einmitt vörðuðu þetta. Í stjórnarskrárnefndinni fóru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir þetta mál fram og til baka.

En það sem mestu skiptir er að Sjálfstæðisflokkurinn lagði þessa hugmynd inn í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Nefni ég þá aftur til þann forustumann, a.m.k. hugmyndafræðilegan í Sjálfstæðisflokknum um áratugaskeið, Styrmi Gunnarsson ritstjóra, sem bókstaflega tók þetta ásamt þjóðareign á auðlindum upp á sína arma og hamraði það inn í vitund íslensku þjóðarinnar.

Það var t.d. Morgunblaðið, aukablað þess sem kom út árið 1997 sem var þýðing á sérstöku aukablaði tímaritsins Economist þar sem fjallað var um þjóðaratkvæði og beint lýðræði, sem varð þess valdandi að ég t.d. fór að hugsa um þessi mál og komst að sömu niðurstöðu og langflestir forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa tjáð sig um þetta mál. Ég rifja það upp að það er ekki mánuður síðan varaformaður Sjálfstæðisflokksins lýsti stuðningi við það að stjórnarskrá yrði breytt með þeim hætti að þar yrði gert ráð fyrir ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég gæti talið upp fjölda forustumanna í Sjálfstæðisflokknum, frá Hönnu Birnu, núverandi borgarstjóra í Reykjavík, til ýmissa fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, til formanna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa með einhverjum hætti lýst fylgi við þetta.

Er þá hægt að segja að það komi Sjálfstæðisflokknum eitthvað á óvart að inni í þessu frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá skuli vera að finna ákvæði um að þjóðin eigi að geta greitt atkvæði um ýmis mál? Að sjálfsögðu ekki. Sjálfstæðisflokkurinn er frumkvöðull, þátttakandi og nánast gerandi í umræðum sem hafa leitt til þess að við erum komin með málið þetta langt.

Í þriðja lagi er síðan verið að ræða um það með hvaða hætti eigi að vera hægt að breyta stjórnarskránni í framtíðinni. Er það svo, frú forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei komið að umræðu um það? Það voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd sem höfðu frumkvæði að því, ég held að þeir hafi meira að segja skrifað það sjálfir, að stjórnarskrárnefnd sameinaðist um tiltekna breytingu sem einmitt laut að því, ekki hinnar sömu og þessi en það felur hins vegar í sér að það hefur verið haft samráð við Sjálfstæðisflokkinn, hann kallaði beinlínis á það sjálfur í gegnum fulltrúa sína í stjórnarskrárnefndinni að farið væri í vinnu af þessu tagi. Það má því segja alveg skýrt að ríkisstjórnin er með þessum þremur efnisbreytingum sem lagðar eru til á stjórnarskránni í reynd að koma til móts við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjálfur á ýmsum stigum kallað eftir opinberlega hér á Alþingi, í ræðu og riti og í stjórnarskrárnefndinni.

Nauðsynlegt er að árétta það að hér eru einungis valin atriði og þættir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á einhverju stigi málsins lýst stuðningi við. Það er ekki verið að koma inn með ákvæði eða einhverjar nýjar breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst andstöðu við, síður en svo. Hér er um að ræða þætti sem hafa verið ræddir á landsfundum flokksins, sumir þeirra eins og þjóðaratkvæði beinlínis fólgnir í samþykktum landsfunda Sjálfstæðisflokksins. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að koma hingað og halda því fram að þetta sé mál sem Sjálfstæðisflokknum sé með einhverjum hætti ókunnugt? Það er tóm vitleysa að tala svoleiðis og í sjálfu sér hnígur það að þeirri ályktun minni að andstaða Sjálfstæðisflokksins við þetta mál er ekki skortur á samráði og ekki heldur þau þrjú efnislegu atriði sem ég hef hér rætt.

Sjálfstæðisflokkurinn er á móti stjórnlagaþinginu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viljað flytja vald í hendur fólksins, hann hefur alltaf viljað safna völdum í sínar eigin hendur og ráða sem mestu. Það er það sem veldur því líka núna eftir þennan róstusama vetur þar sem fólkið í landinu hefur sett fram ákveðnar lýðræðislegar kröfur og þeim er svarað hér, þá kemur Sjálfstæðisflokkurinn eins og öldubrjóturinn kargi og segir nei. Þeir hv. þingmenn sem sitja hér í skúmaskoti handan við salinn, allir búnir að tala, hafa allir lýst andstöðu við þetta. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan: Hvers vegna eigum við að fela þetta í hendur fólksins? Rýrir það ekki virðingu Alþingis? Niðurstaða hans var að það að flytja vald út til fólksins rýrði virðingu og traust á Alþingi. Í þessu felast svo augljósar þverstæður að hv. þingmaður og leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins verður aðeins að taka hugsanatengsl til endurskoðunar ef hann ætlar að leiða sinn mikla flokk til mikilla sigra í framtíðinni.

Það er ekki hægt að koma hér síðan eins og hv. þm. Björn Bjarnason, sem virðist vera þeirrar skoðunar að það eigi ekki að samþykkja nokkur frumvörp sem varða þessi mál nema hann leggi þau fram sjálfur, og halda því fram að ríkisstjórnin sé með þessu að kaupa sér stuðning Framsóknarflokksins. Hvað hefur hv. þm. Björn Bjarnason verið lengi í þessum sölum? Jafnlengi og ég. Hann er einna gerhugulastur þeirra þingmanna sem hér sitja og hann veit vel hvað hefur farið fram á Alþingi Íslendinga þessi ár. Hann veit það t.d. að sá hv. þingmaður sem nú er hæstv. forsætisráðherra og er stödd við þessa umræðu hefur margsinnis lagt fram frumvarp af þessum toga. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að halda því fram að þetta sé gert til þess að kaupa sálu Framsóknarflokksins?

Ég lýsti því yfir þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti hér sköruglega í langri og ítarlegri ræðu fyrir frumvarpi Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) að ég styddi það mál. Ég lýsti því þá yfir, eins og ég orðaði það fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna, að ég teldi að samþykkja ætti ákvæði sem færði þetta vald í hendur fólksins í gegnum stjórnlagaþing. Ég var ekki þeirrar skoðunar fyrir 10 eða 11 árum. Síðan hefur það gerst að ég hef setið í stjórnarskrárnefnd og ég hef auðvitað fundið það á mínu eigin skinni að það er mjög erfitt að breyta stjórnarskránni vegna þess að menn detta strax í pólitískar skotgrafir.

Þegar við ræddum þetta mál í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma, hvað braust þá upp eins og eldgos hjá Sjálfstæðisflokknum? Jú, það var sú flokkslega tilskipun sem þá réði ríkjum á sínum tíma að það þyrfti auðvitað að skrúfa niður með einhverjum hætti embætti forseta Íslands. Það var það eina sem þeir höfðu áhuga á, og það þurfti alla stjórnarandstöðuna til að neita því að taka þátt í störfum stjórnarskrárnefndar til að knýja það fram að taka mætti önnur atriði líka til umræðu. Þannig hefur staðan verið og þannig hefur hún verið svo oft áður. Þær nefndir sem hafa verið settar niður í gegnum áratugina hafa ekki náð að skila niðurstöðu.

Af þeim sökum dreg ég þá ályktun að það væri farsælt að vísa þessu máli til þess aðila sem í sjálfu sér er sá sem gefa á stjórnarskrána, þ.e. þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans. Það er þess vegna sem ég styð heils hugar þá hugmynd sem Framsóknarflokkurinn bar núna inn á Alþingi Íslendinga inn í þessa umræðu. Ég tel að það skipti mjög miklu máli að þetta vald verði með þessum hætti framselt til fólksins. Ég tel að út úr því muni koma gjörbreytt stjórnarskrá. Ég tel að ýmsar þær hugmyndir sem hafa verið á kreiki í umræðu finni þar farveg sem þær eiga litla möguleika á að finna sér í gegnum stjórnarskrárnefndir eins og þær hafa starfað á síðustu árum. Ég tala af reynslu, ég var í stjórnarskrárnefndinni sem tók við fullt af hugmyndum, hélt fundi, opnar ráðstefnur og fékk fullt af hugmyndum. Það var bara ekki vilji til að skoða þær ítarlega í þeirri nefnd.

Þess vegna segi ég: Frumvarpið sem hér liggur fyrir er að öllu leyti gott. Ég er mjög ánægður með að þarna skuli vera að finna ákvæði um að þær náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði lýstar þjóðareign. Menn geta síðan reynt að túlka það tiltekna atriði á ýmsa vegu. Sumir túlka það svo að það þýði að núverandi kvótakerfi verði haggað og það jafnvel fellt. Aðrir eru allt annarrar skoðunar. Ég tel að þetta skipti máli vegna þess að með þessu nýja stjórnarskrárákvæði verður það staðfest að útgerðarmenn eða aðrir sem njóta slíkrar heimildar munu aldrei öðlast beinan eða varanlegan eignarrétt að fiskveiðiauðlindinni. Sömuleiðis girðir ákvæðið algjörlega fyrir það að varanlegt afsal þjóðareignarinnar geti átt sér stað. Það slær líka að mínu viti alveg í gadda að þeir sem eru handhafar veiðiheimilda verði að sæta því að hlutlægar og almennar takmarkanir verði gerðar með lögum, að sjálfsögðu frá Alþingi Íslendinga, á þeim afnotarétti á auðlindinni sem þeir njóta nú, eftir atvikum í þrepum. Ég orða það svona vegna þess að í skýrslu auðlindanefndar á sínum tíma var birt álit tveggja fræðimanna, Þorgeirs Örlygssonar og Sigurðar Líndals, þar sem sagt var svart á hvítu að heimild löggjafans lægi fyrir til þess að innkalla veiðiheimildir ef það væri gert á nægilega löngum tíma og í nægilega smáum áföngum. Ég talaði einu sinni um 20 ár en ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi farið upp í 40 ár. En hvað sögðu þeir? Það er nægilegt ef það er gert yfir sjö ára fyrningartíma. Ég tel að þetta ákvæði hér, (Gripið fram í.) ef það verður samþykkt, renni stoðum undir þennan möguleika. Ég tala bara hreint út, ég er þeirrar skoðunar að það sé framtíðin og að við verðum að skoða það. Það er ein af þeim ástæðum sem liggja því til grundvallar að ég er ákaflega ánægður með (Forseti hringir.) 1. greinina, alveg eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson var þegar við störfuðum saman í starfshópi stjórnarskrárnefndar.