136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:54]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem hefur verið nokkuð lengi á dagskrá þingsins og er loksins komið til umræðu. Það fjallar um um heimild til að semja um álver í Helguvík.

Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilað að ganga til samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf. vegna byggingar og reksturs álvers í Helguvík. Um er að ræða heimild sem kveður á um frávik frá lögum sem eru í öllum aðalatriðum sambærileg við þau sem heimiluð voru í samningum sem þegar hafa verið gerðir vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að starfsemi félagsins skuli að öðru leyti vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Kveðið er á um að uppbygging, túlkun og framkvæmd þess samnings sem gerður verði innan ramma laganna skuli lúta lögsögu íslenskra laga.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um er áformað að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og þegar álverið verður fullbyggt verði ársframleiðsla þess allt að 360.000 tonn. Áætlað er að álverið taki til starfa á seinni hluta árs 2011 og þá verði fjöldi starfsmanna 210. Áformað er hins vegar að í fullbyggðu álveri starfi 540 manns.

Þessi áform munu að sjálfsögðu ráðast af ýmsum öðrum þáttum en fjárfestingarsamningi einum við ríkið. Fjármögnun mun þar sennilega ráða hvað mestu og einnig það hvernig tekst að afla raforku til verksins. Þá er rétt að halda því alveg tryggilega til haga að ekki liggja fyrir öll lögboðin leyfi fyrir álveri af þessari stærðargráðu. Fjárfestingarsamningurinn sem áformað er að gera á grundvelli þeirra laga sem þetta frumvarp miðar að fjallar ekki á nokkurn hátt um fjármögnun verkefnisins, raforkusölu eða það umhverfismat og starfsleyfi sem þurfa að liggja fyrir.

Nú þegar liggur fyrir mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum vegna 250.000 tonna álvers í Helguvík. Eins og þingheimi er kunnugt var helsta niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag. Sú niðurstaða er þó sett fram með þeim fyrirvara að umhverfisáhrif tengdra framkvæmda liggi ekki fyrir.

Sömuleiðis er alveg klárt að fyrir liggur að Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi vegna álvers af þeirri stærð. Þá hafa sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður bæði gefið út byggingarleyfi vegna fyrsta áfanga álversins.

Það hefur komið fram í þessum sölum og sömuleiðis í opinberri umræðu að ekki eru allir á eitt sáttir við það að fjárfestingarsamningur af þessu tagi skuli vera gerður. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að gera hann til að tryggja að sú fjármögnun fimm banka sem hyggjast lána til verkefnisins liggi fyrir. Hann er forsenda þess að samningur af þessu tagi sem ég er nú að leita heimildar til að gera liggi fyrir. Auðvitað horfi ég til þeirrar staðreyndar að Íslendingar eru núna staddir í verulegum efnahagslegum erfiðleikum og hér horfum við í gapandi augu atvinnuleysis upp á 10% sem er fáheyrt í okkar samfélagi. Það skiptir vitaskuld máli að störfin sem verða til við framkvæmdina sjálfa, við línulagnir, öflun orku, eftirlit og annað, munu að verulegu leyti verða til á þeim tíma þegar atvinnuleysi verður hér mest og efnahagslægðin dýpst. Ég hika ekki við að segja að það skipti máli fyrir ákvörðun mína í þessu

Áætlað er að ársverk við byggingu álversins verði um 4.300. Fjöldi starfa nær hámarki á árinu 2011 og verða þá 1.200–1.500 manns við störf þegar mest er en að jafnaði um 950 manns sem þar verða beinlínis við störf. Sömuleiðis er mikilvægt að gera sér grein því að fjöldi starfa við tengd orkuverkefni sé svipaður en þó aðeins meiri en við byggingu álversins sjálfs. Þegar allt er talið má áætla að 8–9 þús. ársverk verði til vegna þess að lagt er í þessa framkvæmd. Ég undirstrika aftur það sem ég hef þegar sagt, þessi samningur er forsenda þess að það takist að fá þá fjármögnun frá fimm alþjóðlegum bönkum sem ég gat um áðan.

Það er líka áformað að innlent vinnuafl verði langstærsti hluti starfsmanna við bygginguna, fast að 90%. Þau sem álverið hyggjast reisa hafa lýst því ákaflega vel með hvaða hætti þau hyggist reyna að treysta það að sem flest störf falli til innan lands. Þannig verða ákveðnir partar af álverinu sem endranær hafa verið fluttir inn fullgerðir samsettir hið minnsta hér á landi sem skapar í sjálfu sér nokkur störf til viðbótar og það skiptir máli.

Ef ég legg í þá sjóferð, frú forseti, að gera grein fyrir efni frumvarpsins sjálfs er fyrst til að taka það að þau frávik sem lagt er til að verði heimiluð frá lögum í fjárfestingarsamningnum varða langflest skattlagningu. Nokkur varða þó líka önnur atriði. Þannig er t.d. lagt til að veitt verði undanþága frá ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, og sömuleiðis frá lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, enda mun félagið sjálft viðhalda fullnægjandi bruna- og viðlagatryggingu á þann hátt sem við skoðun okkar í ráðuneytinu kemur í ljós að telst venjuleg í álframleiðslu. Ég verð sömuleiðis að segja að ég tel að þessi frávik hljóti að teljast hvoru tveggja til hagsbóta, bæði ríki og hugsanlega félaginu sjálfu.

Hvað skattlagningu varðar, sem hefur líkast til verið það atriði sem einkum hefur verið gagnrýnt af þeim sem hafa tekið opinberlega til máls um þetta mál, má nefna það helst að lagt er til að heimilað verði að semja svo um að tekjuskattshlutfall félagsins verði ekki hærra en 15% á samningstímabilinu. Verði hlutfallið hins vegar lægra en 15% skuli það gilda fyrir félagið. Rétt er að vekja eftirtekt þeirra sem hugsanlega kunna að vilja skoða þetta rækilega að þetta felur það í sér að ef ríkisstjórn tekur ákvörðun um að hækka tekjuskattshlutfallið umfram 15% gildir það ekki um þetta félag. Það kann ýmsum að þykja ósanngirni í því gagnvart íslenska ríkinu en það verður hins vegar að leggja það á mælistiku þeirrar þarfar sem ég lýsti áðan fyrir að búa til mörg störf við þær aðstæður sem við búum við núna.

Þá eru heimiluð frávik hvað varðar frádrátt rekstrartaps frá skattskyldum tekjum en hins vegar er rétt að taka það alveg skýrt fram að bæði þessi frávik leiða ekki til ívilnunar miðað við núgildandi skattalög. Til upplýsingar og samanburðar má geta þess að hámark tekjuskattshlutfalls vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði er 18% og sú ákvörðun var tekin miðað við þágildandi skattalög. Sömuleiðis er lagt til að þetta félag verði undanþegið iðnaðarmálagjaldi sem rennur til Samtaka iðnaðarins og sömuleiðis markaðsgjaldi sem rennur til Útflutningsráðs. Það er líka lagt til að það verði heimilar sérreglur varðandi útreikning stimpilgjalda og sömuleiðis að félagið skuli undanþegið rafmagnseftirlitsgjaldi sem er innheimt samkvæmt lögum nr. 146/1996 sem fjalla um öryggi raforkuvirkjana, neysluveitna og raffanga.

Frú forseti. Þessar undanþágur eru hinar sömu og að því er varðar t.d. stimpilgjöldin og er að finna í samningum vegna álvers á Grundartanga og Reyðaráls. Stimpilgjaldið á samkvæmt því sem fram kemur í þessu frumvarpi að vera 0,15% af öllum stimpilgjaldsskyldum skjölum, en öll skjöl sem lúta að endurfjármögnun og hlutabréf í félaginu eru undanþegin stimpilgjaldi. Sömuleiðis er lagt til að heimilt verði að semja um fyrirkomulag við greiðslu fasteignaskatts, skipulagsgjalds og byggingarleyfisgjalds og líka er lagt til að í samningnum verði heimilt að kveða á um að ekki verði lagðir nýir skattar á félagið sem tengjast t.d. raforkunotkun eða útblæstri gróðurhúsalofttegunda nema því aðeins að slíkir skattar verði lagðir á önnur fyrirtæki í landinu, með öðrum orðum er með þessum samningi verið að leggja þetta félag á sama grunn og önnur. Sömuleiðis er lagt til að lögfest verði heimild til að fella niður tolla, vörugjöld vegna innflutnings á byggingarefnum og vörum til reksturs álversins. Ég vek hins vegar eftirtekt hæstv. forseta á því að slík heimild er raunar þegar fyrir hendi samkvæmt reglugerð nr. 630/2008 sem fjallar um ýmis tollfríðindi.

Í stuttu máli, frú forseti, má segja að þær undanþágur frá lögum sem er lagt til að verði heimilaðar samkvæmt þessu frumvarpi eigi það sameiginlegt að vera nákvæmlega þær sömu og hefur áður verið samið um vegna álvers á Grundartanga og Reyðarfirði. Þær heimildir sem er lagt til að verði lögfestar með þessu frumvarpi eru þó færri en samkvæmt þeim heimildarlögum sem gilda um þau tvö álver sem ég gat um áðan og það stafar m.a. af því að vegna breyttra skattalaga er ekki lengur nauðsynlegt að semja um sum þeirra frávika sem giltu fyrir önnur álver og þar munar náttúrlega mest um það að eignarskattur hefur verið felldur niður. Það má líka nefna að aðkoma ríkisins að samningum vegna álvers í Helguvík er mun minni en vegna álvera á Grundartanga og Reyðarfirði. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að ríkið verði aðili að hafnarsamningi vegna álvers í Helguvík og ekki er heldur gert ráð fyrir því að ríkið ábyrgist neinar efndir sveitarfélaga líkt og var í fyrri samningum.

Menn hafa svo velt því fyrir sér hvað megi meta þær ívilnanir sem hér er að finna til hárra upphæða. Við í iðnaðarráðuneytinu fengum óháðan aðila til að meta það. Það var Páll Jensson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, og hann reiknaði út það sem kalla mætti ríkisstyrk sem hugsanlega mundi felast í fjárfestingarsamningi sem gerður yrði ef frumvarpið verður að lögum. Í þeim útreikningum er metið hverjar skattgreiðslur félagsins yrðu miðað við annars vegar almennar reglur og hins vegar þær reglur sem mundu þó gilda samkvæmt fjárfestingarsamningnum. Miðað við núvirðisútreikninga yfir 20 ára tímabil telst ívilnunin vera 16,2 millj. bandaríkjadala vegna álvers í Helguvík. Heildarfjárfestingin fyrir fullbúið álver með 360.000 tonna ársframleiðslugetu er áætluð 1.800 millj. bandaríkjadala þannig að samkvæmt einföldum reikningi nemur ívilnunin að tiltölu 0,9% af áætluðum stofnkostnaði.

Til samanburðar taldist ívilnun miðað við sama árafjölda fyrir álver Alcoa, Fjarðaál, á Reyðarfirði sem er með 322.000 tonna framleiðslugetu á ári vera 20,9 millj. bandaríkjadala. Áætluð heildarfjárfesting miðað við verðlag ársins 2003 var 1.143 millj. bandaríkjadala þannig að ívilnunin í því verkefni nam um 1,83% af stofnkostnaði þannig að að tiltölu er ívilnunin vegna Helguvíkur í reynd ekki nema hálfdrættingur á við það sem varð vegna Fjarðaáls á Reyðarfirði. Það ætti að vera alveg ljóst, frú forseti, að miðað við útreikninga þessa prófessors sem ég nefndi áðan mun sú ríkisaðstoð sem felst í fjárfestingarsamningi vegna álvers í Helguvík verða mun minni en var upphaflega áætlað vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði. Þar munar sennilega mest um að það var reiknað með minni ívilnun vegna Grundartanga og það hefur líka áhrif á útreikningana núna vegna álvers í Helguvík að eignarskattur er fallinn brott en öll álfyrirtækin njóta auðvitað góðs af því eins og önnur fyrirtæki í landinu. Þennan fyrirvara vil ég gera við þessa útreikninga hjá hinum ágæta prófessor.

Ég vil líka árétta að í þessum útreikningum er að sjálfsögðu ekki tekið tillit til þeirra tekna sem munu renna í ríkissjóð vegna skattgreiðslna starfsmanna álversins og kaupa fyrirtækisins á vörum og þjónustu. Þetta ber að skilgreina sem ríkisaðstoð og í samræmi við viðeigandi grein EES-samningsins, 61. gr., verður Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnt um þá ríkisaðstoð sem telja má að felist í fjárfestingarsamningnum með nákvæmlega sama hætti og þáverandi ríkisstjórn gerði vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði

Frú forseti. Að þessu sögðu leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.