138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er lítið og einfalt mál, flutt af hæstv. fjármálaráðherra í því skyni að vinna úr þeim uppsöfnuðu vanskilum sem eru á skattgreiðslum við þær aðstæður sem við búum við. Hugsunin hér er sú að gefa mönnum færi á því að dreifa greiðslum á vanskilunum yfir nokkurn tíma meðan þeir eru að koma rekstrinum á réttan kjöl og leggja fyrst og fremst áherslu á að menn standi skil á þeim gjöldum sem falla til frá mánuði til mánaðar og hefji síðan að greiða inn á vanskilin á góðum, vaxtalausum kjörum á nokkrum árum. Vanskil eru því miður umtalsverð í kjölfar hrunsins. Það er þó ekki rétt að horfa einvörðungu á þær tölur sem nefndar hafa verið í því sambandi því að þær háu tölur eru auðvitað að verulegu leyti óvissu háðar. Til að mynda í virðisaukaskattinum eru um 77% af kröfunum áætlanir um skatta og þær eru iðulega umtalsvert hærri en hefur í raun og veru verið útskattað af viðkomandi aðila. Það eru áætlanir sem gerðar eru til þess að hvetja framteljendur til að skila, þess vegna er ekki fyllilega á brúttótölunum byggjandi.

Það var nokkur umræða í nefndinni um það hvernig rétt væri að standa að þessu. Út af fyrir sig hafi allir nefndarmenn verið sammála um að það sé mikilvægt að hjálpa mönnum á réttan kjöl aftur. Það er auðvitað alveg ljóst að stór hluti af þeim kröfum sem við erum hér að tala um mun aldrei innheimtast, það er raunar tiltölulega lítið hlutfall sem menn gera ráð fyrir því að endurheimtist.

Nefndarálitið er að finna á þskj. 870. Að álitinu standa allir þingmenn úr hv. efnahags- og skattanefnd. Það eru auk mín þingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Magnús Orri Schram, Pétur H. Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson, Þór Saari, Birkir Jón Jónsson, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson.