138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni ein af mörgum einskiptisaðgerðum sem gripið er til við þær sérstöku aðstæður sem við nú búum við. Að þessu sinni snýr frumvarpið að bílaleigum í landinu og ráðstafana sem gripið er til til þess að tryggja nægilegt framboð af bílaleigubílum á ferðaþjónustumarkaðnum í sumar. Þannig háttar til að bílaleigur hafa getað nýtt sér innskatt af þeim nýju bílum sem þær kaupa, en því er auðvitað ekki að heilsa með notaða bíla. Því er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði tímabundið ígildi innskatts af notuðum bifreiðum sem bílaleigurnar geta pantað fyrir 1. júlí næstkomandi, eða eru búnar að fá fyrir þann tíma. Menn geta keypt ákveðið hlutfall síns bílaflota í notuðum bílum og notið þessa stuðnings því að eftir þensluna hér síðustu árin búum við yfir miklum bílaflota notaðra bíla frá tilteknu árabili. Þar sem það liggur fyrir að ekki er að óbreyttu hægt að verða við þeirri eftirspurn vegna þess fjölda ferðamanna sem við fáum sem betur fer til landsins í sumar, en það er efnahagslega mikilvægt fyrir okkur að fá og njóta viðskiptanna við þá, er talið mikilvægt að tryggja að þessir ferðamenn njóti þessarar þjónustu sem sjálfsögð er, með því að styðja við bílaleigurnar í því að stækka flota sína fyrir sumarið með þessum hætti.

Nefndarálitið er á þskj. 867 og ég þakka hv. nefndarmönnum fyrir samvinnuna um málið.