139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

skattamál.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að ég hafi talað um skattkerfisbreytingar, að það væri ekki líklegt að gera þyrfti ráð fyrir umfangsmiklum breytingum. Enn eru þó til staðar ýmsir veikleikar í íslenska skattakerfinu sem þarf að taka á vegna þess að það var vanrækt um langt árabil að uppfæra íslenska skattkerfið og taka inn ýmsar breytingar sem löndin í kringum okkur gerðu. Við höfum að hluta til tekið á því nú þegar eins og með samstæðuskattlagningunni, innleiðingu svokallaðra CFC-reglna, en það er t.d. ljóst að hér þarf ákvæði um þunna eiginfjármögnun. Þar er gat í skattkerfi okkar sem býður hættum heim og það er ein af ábendingunum sem kom fram strax í fyrri skýrslu sérfræðingahóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sá skattstofn sem ég tel að hvað mikilvægast væri að geta sem fyrst lækkað er tryggingagjaldið sem auðvitað var hækkað umtalsvert til að mæta kostnaði af auknu atvinnuleysi. Eðlilega standa kröfur til þess frá atvinnulífinu að um leið og atvinnuleysið minnkar verði gjöldin þar lækkuð. Það væri ákaflega æskilegt að geta tekið skref (Forseti hringir.) í þá veru vegna þess að þarna er um launatengdan kostnað að ræða og það væri liður í því að takast á við atvinnuleysið og ná því niður að draga úr kostnaði sem er launatengdur eða tengist t.d. til nýrra starfa eins og (Forseti hringir.) tryggingagjaldið gerir.