140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef talsverðan áhuga á því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði oftar haldnar á Íslandi en á 10 ára fresti, að við munum sjá meira af þeim í framtíðinni. Þess vegna þarf að vanda mjög til verka þegar lagt er upp í það að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við förum af stað með þjóðaratkvæðagreiðslu sem mun ekki skila neinum niðurstöðum sem hægt er að vinna með, vegna þess að bæði eru tillögurnar óljósar og ekki ljóst hvað á að gera við þær þegar þjóðaratkvæðagreiðslan er afstaðin, þá tel ég að við getum raskað því töluvert hvernig fólk hugsar til þjóðaratkvæðagreiðslna. Auðvitað vill maður hafa áhrif. Þú ætlast til þess þegar þú ferð og tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu að eitthvað sé gert með þær niðurstöður. En þegar spurningarnar eru óskýrar verður niðurstaðan umdeilanleg og eins og hv. þingmaður kom inn á ekkert ljóst hvað gert verður með þær.