140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála þessu mati hv. þingmanns, en ég er líka þeirrar skoðunar að ástæðan fyrir því að þessir hlutir eru með þessum hætti sé tiltölulega augljós.

Svo ég noti aftur sem dæmi þriðju spurningu í 2. lið um persónukjör þá er þar gefið í skyn að stjórnarskráin sé íþyngjandi hvað varðar þessa hluti núna og spurt hvort ekki eigi að heimila persónukjör „í meira mæli“ en nú er. Sem sagt, eins og ég og hv. þingmaður ræddum áðan, þá er verið að biðja um jákvætt svar.

Ástæðan fyrir að það er gert tel ég að hljóti að vera sú að svo ætli stjórnarliðar að koma með sína eigin tillögu að því hvernig persónukjör verði útfært og segja: Hér erum við með tillögu í samræmi við vilja þjóðarinnar, í samræmi við það sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir treysta sér hins vegar ekki til að leggja hina útfærðu tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er hætt við því að ekki yrðu allir sáttir við útfærsluna og meiri hluti næðist hugsanlega ekki. En með þessu telja þeir sig vera búna að fá það sem má kalla óútfyllta ávísun. Þeir fylla hana síðan út sjálfir, þ.e. útfæra tillöguna, og segja: Hér er tillagan komin, tillagan sem þjóðin bað um. Sú er auðvitað ekki raunin vegna þess að þjóðin fékk aldrei að segja skoðun sína á útfærslunni. Það er hún sem hlýtur að skipta máli.

Það hvernig þessar spurningar eru orðaðar sýnir að mínu mati annars vegar að ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki séð sér fært að móta sér skoðun á því hvernig stjórnarskráin eigi að vera, hins vegar treystir hún sér ekki til að setja útfærðar tillögur í dóm þjóðarinnar.