149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

463. mál
[16:44]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Það þarf ekki að fjölyrða um gildi móðurmálsins, en ég ætla samt að gera það hér. Mér þykir þetta mjög góð tillaga frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Hún á fullan rétt á sér og er bráðnauðsynleg. Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór ágætlega yfir eiga þessi örtungumál sem íslenskan tilheyrir undir högg að sækja í hinum rafræna heimi og maður finnur fyrir því sjálfur sem foreldri að börnin eru ansi ung jafnvel farin að tala saman á ensku og sletta mikið ensku í hversdagslegu tali.

Fyrir ekki svo mörgum árum voru íslensk börn ekkert farin að tala ensku að neinu ráði og skildu hana illa alveg fram yfir tíu ára aldurinn og jafnvel lengur. Og fullorðið fólk náði jafnvel aldrei neinni færni í enskri tungu. En nú er enska orðin annað tungumál flestra á Íslandi og stefnir í að verða það ef við gerum ekki eitthvað róttækt, fyrsta tungumál jafnvel með þessu áframhaldi vegna þess að tækin okkar tala ensku að stórum hluta og allt þetta efni er í sjónvarpinu. Við erum t.d. með Netflix og þar er barnaefni ekki talsett. Börnin eru náttúrlega svampar og læra þetta eins og ekkert sé. Það er gott að kunna fleiri en eitt tungumál, tungumálaþekking er verðmæti, en ekki ef annað tungumál fer að taka yfir og tefja fyrir og rugla eðlilegan málþroska. Það eru fjölmargar rannsóknir sem liggja fyrir um málþroska. Það er óumdeilt að góður málþroski, góð undirstaða í móðurmálinu, lesskilningur, er ákveðið verkfæri til náms þannig að fólk nái að fóta sig ágætlega í samfélaginu til lengri tíma og öðlist ákveðna þekkingu. Annað er að móðurmálið og tungan okkar er hluti af menningararfi, bæði persónulegri og menningarlegri sjálfsmynd. Því er mikilvægt að hver þjóð hlúi að tungu sinni og rækti hana.

Í greinargerð með málinu eru nefnd verkefni sem standa nú yfir. Í fyrsta lagi greiningar á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis og hitt er máltækniverkefni á vegum Almannaróms, sem er sjálfseignarstofnun. Þar er verið að leita tæknilegra lausna, hvernig við getum fengið tækin til að tala íslensku og hvernig við getum talað íslensku við tækin, að þau skilji okkur og við þau. Þetta verkefni fór af stað á síðasta ári ef ég man rétt, þessi máltækniáætlun á vegum menntamálaráðherra þannig að hún er kannski ekki mjög langt komin en unnið hefur verið ötullega að því að leita upplýsinga og skoða hvað er í boði þannig að hægt sé að vinna áfram með það.

Til gamans vil ég nefna að ég fann grein úr 12. árgangi tímaritsins Veru frá 1993 um jafnréttismál. Áður en ég held áfram með máltækni og móðurmálið langar mig til að segja í framhaldi af umræðu sem var hér áðan um 40 stunda vinnuviku: Nokkrir þingmenn tóku til máls um það og voru eilítið að metast um það hver hefði fundið upp á því fyrst, ef svo má segja. Það er skemmtilegt að segja frá lokaorðum þessarar greinar, herra forseti. Tilefnið er tillaga Kvennalistans, sem var felld í þinginu, um að auka íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Svo er umfjöllun um það í þessari grein, mjög skemmtilegt 26 árum síðar að sjá þetta. Við erum enn með það viðfangsefni á borðinu hjá okkur. Hér er vinnuvikan líka nefnd.

Mig langar að lesa það hér mér til ánægju, þó að ég hafi ekki ætlað mér að gera það. Ég sé að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, sem tók þátt í umræðunni áðan um 40 stunda vinnuviku, situr hér í hliðarsal. Hér segir, með leyfi forseta:

„Vinnuþrælkaðir íslenskir foreldrar hafa ekki tíma til að tala við börnin sín á hinum miklu mótunarárum bernskunnar og hvað þá að deila með þeim bókmenntum. Þetta er félagslegt, pólitískt og viðhorfslegt vandamál. Ég vil bylta viðhorfum fólks til verðmæta. Ég vil setja styttingu vinnutímans í lög svo að fólk eigi rétt á meiri tíma með börnunum sínum.“

Það eru 26 ár frá því að þetta var ritað, sem er áhugavert.

Í þessari grein um gildi tungumálsins — um það snýst málið sem um ræðir, þ.e. samvinnu Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga við að leita lausna í hinum stafræna heimi til að styrkja stöðu þessara þriggja tungumála — segir, með leyfi forseta:

„Tungumálið er spegill sem bæði einstaklingar og þjóðir spegla sig í. Tungumálið setur mark sitt á hugsanir okkar og afstöðu.“

Áfram segir:

„Saga þjóðar, atvinnuhættir hennar og landið sem hún byggir hjálpast að við að móta handa henni tungumál. Í því máli eru einmitt þau orð og einmitt sú málfræði sem þjóðin þarfnast. Að skipta um tungumál er eins og að skipta um persónuleika.“

Niðurstaðan er að góð undirstaða í móðurmáli skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Það er okkar verkfæri til frekara náms og þroska, mótar okkar persónulegu og menningarlegu sjálfsmynd og við eigum að leita allra leiða nú sem fyrr til að deila reynslu okkar og þekkingu af þeim verkefnum sem unnin eru hér á landi með nágrönnum okkar í Færeyjum og Grænlandi. Ég ítreka að þetta er gott mál og ég vona að það verði samþykkt og unnið áfram.