149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

463. mál
[16:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að stökkva hingað upp í örsnöggt andsvar við þingmanninn fyrst hún beindi orðum sínum sérstaklega að mér þegar hún las um afrek Kvennalistans hér á árum áður. Þingmaðurinn sannar þar í rauninni það sem ég er æ oftar að reka mig á í stjórnmálum, að það er eiginlega sama hversu góða hugmynd manni finnst maður hafa fengið, þegar maður fer að rannsaka hana kemur í ljós að þetta er hugmynd sem Kvennalistinn lagði fram fyrir 30 árum. Þetta á sérstaklega við um mál sem snerta fjölskylduna, sem snerta það að ná einhverju samræmi á milli vinnu og einkalífs, hvort sem við tölum um leikskólana, vinnuvikuna, fæðingarorlofið eða alla þá umgjörð sem við erum haganlega búin að sníða utan um fólk með ung börn. Þetta á allt rætur í Kvennalistanum og í víðara samhengi í kvennahreyfingunni sem hefur verið að tala fyrir þessum málum áratugum saman. Mér fannst því fara vel á því að lesa orð úr Veru fyrir 26 árum til að sýna okkur hvað þessi boðskapur á vel við enn í dag.