149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

463. mál
[16:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að koma hingað og undirstrika þetta vegna þess að þegar maður rýnir í söguna — og almennt eigum við náttúrlega að læra af henni og mættum gera meira af því — má sjá að í sögu Kvennalistans í þessu tilfelli og í þeim málum sem hann lagði áherslu á, eins og hv. þingmaður fór yfir, er áherslan lögð á fjölskylduna, líka í ljósi umræðunnar í dag, #metoo og kvenfrelsið. Við vorum í síðustu viku með þungunarrofsfrumvarp frá hæstv. heilbrigðisráðherra til umræðu, gamalt mál frá Kvennalistanum. Við erum með kynferðislegt ofbeldi og núna birtist það í fleiri myndum, stafrænt ofbeldi í dag og fleira sem var ekki til á þeim tíma þegar Kvennalistinn varð til.

Ég er sammála hv. þingmanni um að Kvennalistinn hafi verið mjög framsækin stjórnmálahreyfing. Hann átti svo sannarlega rétt á sér og sýnir okkur og minnir okkur kannski á að jöfn skipting í þingsal — eða sem jöfnust, að kvenleg sjónarmið séu, og svo þessi karllægu — er alltaf besta blandan, að ákveðið jafnræði ríki. Af því að það er ákveðinn munur á kynjunum þótt ekki sé hægt að alhæfa það, en að ákveðið jafnvægi sé, að þingsalurinn endurspegli það að hálf þjóðin sé kvenkyns og hinn helmingurinn karlkyns og við þurfum að hafa á sem flestum stöðum jafnari skiptingu en nú er. Við erum að færast í rétta átt, en hlutfall kvenna er að minnka á Alþingi, hefur minnkað aðeins síðustu ár og það er ekki gott. (Forseti hringir.) Við vorum að ræða um tungumálið, en þetta var ágætisútúrdúr.