150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

forsendur fyrir ríkisstuðningi við fyrirtæki.

[10:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ómældum fjármunum úr sameiginlegum sjóðum okkar er nú varið til að hjálpa fyrirtækjum og þá er eðlilegt að setja skilyrði. Skilyrðin sem sett hafa verið eru t.d. um tekjufall, stöðu fyrirtækja fyrir Covid-19, hlutfall launakostnaðar í rekstri, engar arðgreiðslur, óumsamda kaupauka, kaup í eigin hlutabréfum, greiðslur af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða lán til eigenda eða nákominna aðila sem eru ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstri eða rekstrarhæfi frá 1. mars og ekki heldur á þeim tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Fyrirtækin þurfa að hafa staðið í skilum við lánastofnanir og með opinber gjöld. Þau mega ekki hafa verið tekin til slita eða bú til gjaldþrotaskipta og loks þarf að vera ástæða til að ætla að fyrirtæki geti vaxið og dafnað eftir að heimsfaraldurinn hefur gengið yfir.

Hvergi er hins vegar minnst á skattaskjól eða aflandsfélög. Við viljum ekki rétta þeim fjármuni skattgreiðenda sem hafa svikið undan skatti og ekki lagt sinn sanngjarna hlut af mörkum til sameiginlegra sjóða og ætla öðrum að bera sinn hlut í velferðarkerfinu.

Panama-skjölin sýndu að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs var einstakt í heiminum á þeim tíma sem gögnin náðu til og við þekkjum samspil móður- og dótturfélaga við lágskattasvæði og aflandsfélög.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er ekki nauðsynlegt að hans mati að setja skýr skilyrði um að einstaklingar eða lögaðilar með skráð eignarhald í aflandsfélögum eða á lágskattasvæðum eða fyrirtæki í eigu aflandsfélaga eða félaga sem skráð eru á lágskattasvæðum fái ekki aðstoð ríkisins með nokkrum hætti?