150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða spurningu. Hér er auðvitað fjölmargt sem snýr að félagslegum aðgerðum sem kallaðar eru. 8,4 milljarðar eru m.a. handa þeim hópum sem eru viðkvæmir fyrir og sérstaklega við þessar aðstæður. Hér eru þó nokkrir fjármunir sem eru ætlaðir til þess, til að mynda eru 450 milljónir til að vinna gegn félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja og handa fjölskyldum fatlaðra barna o.s.frv., bæði í barnavernd og úti um allt land.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á. Í umfjöllun okkar kom skýrt fram að eftirspurnin eftir aðstoð, mataraðstoð og fleiru, hefði aukist og við leggjum aukalega til 25 milljónir sem fara gagngert til þess og það er þá til viðbótar við allar þær aðgerðir sem þegar koma fram í frumvarpinu í þennan félagslega stuðning.