150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, sjái þörfina á því að eiga meira samstarf við sveitarfélögin og samráð. Það er algjörlega nauðsynlegt og eitthvað sem hefur ekki verið viðhaft og það skrifast á ríkisstjórnina, það er bara þannig. Ég vildi þó koma nánar að sveitarfélögunum og í þessu tilfelli Suðurnesjum. Nú voru nýjustu tölur um atvinnuleysi á Suðurnesjum að berast og er hlutfallið 28% í aprílmánuði. Þetta eru hreint og beint hamfaratölur, ef við getum orðað það þannig. Reykjanesbær er með 28% atvinnuleysi og Suðurnesin í heild sinni með 25% atvinnuleysi. Það er sérstök aðgerð til Suðurnesja í þessu frumvarpi upp á 250 millj. kr. Ég held því miður að þessi einstaka greiðsla og aðgerð dugi afar skammt og því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér og hvort þess sé að vænta að það komi frekari stuðningur til Suðurnesja.