150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að fást við einn hluta af því sem við erum farin að kalla aðgerðapakka sem kemur frá ríkisstjórninni og þessi pakki er númer tvö í röðinni. Hann er talsvert umfangsminni en sá fyrsti og eru það kannski vonbrigði. Hv. þm. Willum Þór Þórsson fór ágætlega yfir nefndarálitið og vinnu nefndarinnar og ég vil gjarnan byrja á því að segja að ég held að nefndin hafi unnið ágætt starf, kallaðir voru til margir gestir og nefndinni bárust mörg álit. Við ræddum fram og til baka um ýmsa hluti og frumvarpið hefur tekið smávægilegum breytingum, þ.e. þær fjárhæðir sem á að nýta, og ef mér telst rétt til þá bættust 500 milljónir í þennan pakka sem var upp á 13 milljarða rúma þannig að hann tók ekki stakkaskiptum.

Í greinargerð er fjallað um ýmis atriði sem nefndin segir að hefði mátt gera meira í og væri nauðsynlegt að gera meira í og bendir á en stígur ekki stærri skref en þetta. Ég er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og ég er með á álitinu í þeim skilningi að ég lýsi mig samþykkan því en um leið geri ég — það má nú varla kalla það fyrirvara, það er kannski ekki formlega rétt — athugasemd með því að ég styðji þessar tillögur, að ég telji þær alls ekki ganga nógu langt til að takast á við þann vanda sem við er að etja. Staða efnahagsmála er vissulega erfið og óvissan mikil og þær hugmyndir sem ég legg fram, og við hjá Viðreisn, eru í sjálfu sér ekki mjög margar, þær eru til þess að gera fáar. Við vildum draga fáa drætti en nokkuð afdráttarlausa. Okkar hugmyndir ganga fyrst og fremst út á það að reyna eftir mætti að tryggja að atvinnulífið haldist gangandi og atvinnuleysi verði eins lítið og hægt er. Það er langmikilvægast. Við vitum að atvinnuleysi hefur skotist upp núna. Þúsundir eru á atvinnuleysisskrá og hlutabótaleið og brýnasta verkefni okkar til er að reyna að koma í veg fyrir að það verði viðvarandi, standi lengi, vegna þess að það er svo hættulegt. Það er það sem maður óttast, að ef atvinnuleysi verður umfangsmikið og það teygist úr því þá munum við standa frammi fyrir því að það verði miklu stærri hópur fólks en við höfum nokkurn tímann séð sem mun ekki eiga aftur afturkvæmt á vinnumarkaðinn og það væri mjög hryggileg þróun. Þess vegna leggjum við hér til að opnað sé fyrir það, og kemur fram í breytingartillögum, að tryggingagjaldi verði breytt á þann veg að það verði lækkað almennt núna í sex mánuði þannig að það verði 75% af því sem nú er en næstu 12 mánuði verði það bara fjórðungur af því sem nú er þegar fólk kemur til starfa af atvinnuleysisskrá. Nú veit ég fullvel að þegar við ræddum svokallaðan bandorm og hann var afgreiddur hér fyrr í dag, þá voru tillögur í þessa veru sem voru í því frumvarpi felldar. Ég held hins vegar, og ég er sannfærður um það, að ríkisstjórnin, meiri hlutinn, muni koma með tillögur sem ganga í þessa átt. Ég er algerlega sannfærður um það og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við vindum bráðan bug að því að skapa rými fyrir þær aðgerðir.

Við leggjum líka áherslu á það, og það miðar líka að því að halda uppi atvinnustigi, að við bætum í þá fjármuni sem eru ætlaðir til þess að koma námsmönnum í vinnu. Þegar hafa verið boðaðar aðgerðir um að setja 2 milljarða í að skapa sumarstörf hjá hinu opinbera. Við viljum bæta milljarði í þann pott. Við viljum víkka það út til þess að það nái einnig til almenna markaðarins. Það eru ekki síður fyrirtækin sem þurfa á því að halda að geta ráðið námsmenn í vinnu en að námsmennirnir þurfi á fyrirtækjunum að halda. Margir námsmenn hafa um margra sumra skeið unnið hjá sama fyrirtækinu, eru þar hnútum kunnugir og það eru ekki síður verkefni í atvinnulífinu sem þarf að leysa. Þar að auki blasir við að með því að fara þessa leið verða þau störf sem til eru ódýrari fyrir ríkið því ríkið borgar auðvitað með störfunum. Það borgar þá helming eða svo á móti störfunum sem fara á almenna markaðinn en 100% fyrir þau sem verða hjá ríkinu sjálfu. Það liggur í augum uppi.

Loks leggjum við til að við búum mjög í haginn fyrir framkvæmdir á samgöngumannvirkjum um allt land og hér á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst borgarlínu. Við þurfum að leggja fé í það að hanna, undirbúa, bjóða út og flýta verkefnum þannig að á næstu misserum eigum við tilbúin verkefni sem hægt er að ráðast í hratt og örugglega. Þetta er mikilvægt bæði vegna þess að við þurfum á innviðunum að halda til lengri framtíðar og aftur mun þetta skapa atvinnu fyrir fjölmargt fólk.

Allt þetta sem ég hef nefnt hér á undan er til þess fallið að örva atvinnulífið, auka umsvifin og koma hjólum atvinnulífsins eins fljótt í gang og nokkur einasti kostur er og um leið hamla því mikla böli sem atvinnuleysi er. Eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni, stóra hættan sem ég held að við eigum að gera allt til að koma í veg fyrir er sú að við förum að horfa fram á viðvarandi atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi. Við þekkjum það frá mörgum öðrum löndum. Það er mjög erfitt viðfangsefni, þegar fólk er búið að vera lengi atvinnulaust, að komast aftur út á vinnumarkaðinn og verða virkt að því leyti til í samfélaginu. En um leið og við erum að horfa á það sem þarf að gera núna til skemmri tíma, sem er vissulega ærið úrlausnarefni, verðum við að vera djörf og við verðum að horfa til lengri framtíðar. Þess vegna höfum við í Viðreisn lagt mjög mikið kapp á að gera allt sem við getum til þess að örva rannsóknir, nýsköpun og tækniframfarir í þessu landi.

Það blasir við, og ég hef oft talað um það í þessum ræðustól, að við erum alltaf að segja þetta við sjálf okkur, það er alltaf verið að segja þetta við okkur af okkar ráðgjöfum frá útlöndum og hvaðan sem þeir nú koma: Þið verðið að skjóta styrkari stoðum undir efnahagslífið, þið verðið að auka fjölbreytnina. Þið megið ekki treysta svona mikið á fáar einhæfar atvinnugreinar. En okkur hættir alltaf til að falla í þá gryfju að gleyma þessum góðu ráðum og taka því fagnandi þegar greinar spretta upp og verða svo fyrirferðarmiklar í okkar efnahagsumsvifum að bjáti eitthvað á þar þá erum við í miklum vanda. Með því að fara nýsköpunarleiðina erum við að búa til miklu fjölbreyttara atvinnulíf sem verður miklu betur í stakk búið til að takast á við áföll af ýmsu tagi. Þess vegna höfum við sagt: Við eigum að leggja miklu meira fé í þetta. Við þurfum að gera það strax. Þess vegna leggjum við til að sett verði aukið fé í Rannsóknasjóð, meira en meiri hlutinn leggur til, líka í Tækniþróunarsjóð og Innviðasjóð. Það liggur alveg fyrir, það var í fjölmiðlum í dag, að Tækniþróunarsjóður var t.d. að úthluta 800 milljónum, það hafa aldrei verið fleiri umsóknir. Gestir fyrir nefndinni sem töluðu um alla þessa sjóði sögðu: Úthlutunarhlutfall okkar er allt of lágt. Við erum að hafna verkefnum sem eru þess fullkomlega verðug að fá brautargengi. Þeir getað notað miklu meira fé. Nú þurfum við að vera djörf og við þurfum að dæla fé inn í þessar greinar. Þær munu kannski ekki skila störfunum á morgun en það líður ekki á löngu þar til þau fara að koma og skila arði og breyta íslensku samfélagi. Hér verðum við að vera djörf og hugsa til langs tíma. Því miður, þrátt fyrir viðleitni í þessa átt þá er alls ekki gengið nógu langt í þessum efnum að mínu mati. Þess vegna leggjum við einmitt til í breytingartillögum okkar að setja fé í þessa sjóði og auka þar við um 600 milljónir í Tækniþróunarsjóð, 600 milljónir í Rannsóknasjóð og 50 milljónir í Innviðasjóð vegna þess að við verðum að klekja út fleiri fyrirtækjum og verkefnum.

Annað í tengslum við nýsköpun, fyrr í dag eða í gær vorum við að afgreiða blessaðan bandorminn þar sem við fjölluðum líka mikið um nýsköpun. Þar varð niðurstaðan vissulega sú — og því ber að fagna — að stíga skref í átt að því að auka þá fyrirgreiðslu sem fyrirtæki fá í gegnum skattafslátt fyrir verkefni sem hafa verið metin hæf til endurgreiðslu á sköttum, það er vel. Menn vildu því miður ekki hafa þær aðgerðir ótímabundnar heldur tímabundu þær sem er ekki það sem nýsköpun og þróunarvinna og vísindastörf þurfa á að halda. Þau þurfa á því að halda að vita að þau geti treyst á stuðningskerfið til langs tíma.

Annað mál sem við í Viðreisn höfum lagt áherslu á er það að við erum með mörg nýsköpunarfyrirtæki sem eru langt komin í því að fjármagna sig til framtíðar, eða einhverrar framtíðar, skulum við segja, sem búa nú við gríðarlegan vanda. Í þessu samhengi er rétt að nefna að það er sjóður sem heitir Kría sem á að fara að stofna, það á eftir að setja lög um hann en gert er ráð fyrir honum í tillögum nefndarinnar núna og tillögum stjórnvalda og það er ágætt. Á sama tíma hefur verið rætt um svokallaða stuðnings Kríu. Að þessu sinni er ekkert fjármagn veitt til þess verkefnis. Það verkefni er afar brýnt og ég veit að ríkisstjórnin hefur hug á því að flytja tillögur í þá veru. En því miður eru fjármunirnir sem eru veittir þangað allt of litlir. Þetta gengur út á það að ríkið komi með mótframlög á móti fjárfestum til þess að halda þessum fyrirtækjum gangandi. Þess vegna leggjum við fram breytingartillögu sem gerir ráð fyrir því að veitt verði heimild til þess að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem hæstv. nýsköpunarráðherra hefur talað um að ætti að fara með þessi mál, fái 3 milljarða í heimild til þess að fara með fjármögnun á þessum sprotafyrirtækjum sem eru komin á legg og hafa þegar hlotið viðurkenningu. Nú er mjög erfitt að átta sig á því hvort 3 milljarðar eru nóg eða hvort þeir eru allt of lítið. En við getum sagt að ef þetta er allt of mikið þá verði heimildin ekki nýtt. Ef þetta er allt of lítið þá bætum við við þannig að hér er farin mjög hófleg leið í þessu, en hún skiptir gríðarlega miklu máli því að það er nú bara einu sinni þannig að nýsköpunarfyrirtækin sem standa núna frammi fyrir algjörri fjárþurrð skipta tugum. Ef þessi fyrirtæki, sem mörg hver eru búin að vera í misseri og ár að byggja sig upp, leggja upp laupana núna þá verður sá skaði ekki bættur þannig að þetta þarf að gerast strax. Þess vegna legg ég ofuráherslu á að við samþykkjum hér í þinginu að veita þessa heimild þannig að þegar sé hægt að hefjast handa við að koma þessum fyrirtækjum til bjargar. Það hefur viljað brenna við, og ég veit að það er ekki vegna einhvers illvilja, að þær aðgerðir sem þó hafa sumar hverjar verið boðaðar til einstaklinga og fyrirtækja taki allt of langan tíma í framkvæmd. Við erum að tala um brúarlán. Það var fyrst í dag sem fyrsti samningur milli Seðlabanka og banka var gerður, mörgum vikum eftir að þetta var boðað og bankinn segir að það muni taka vikur enn að koma þessu í gagnið. Við verðum að reyna að búa svo um hnúta að þessar aðgerðir allar sem er gripið til séu ekki bara fyrirheit heldur sé þeim hrundið í framkvæmd eins fljótt og vel og nokkur kostur er, því að það er lítið gagn að loforðunum um að eitthvað muni gerast seinna.

Ég er sannfærður um að þingið mun taka vel í þessar tillögur Viðreisnar sem eru mjög hóflegar. Þær eru skynsamlegar og þær munu allar skila okkur betra samfélagi þegar fram í sækir og draga úr þeim skaða sem fyrirsjáanlegur er ef við förum ekki rétt að hlutunum núna.