150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi tryggingagjaldsleiðina. Það sem ég átti við er að hún myndi nýtast fyrirtækjum, hvernig sem þau standa að öðru leyti. Hún snýr ekkert sérstaklega að þeim fyrirtækjum sem standa sérstaklega illa núna. Hv. þingmaður kom einnig inn á það í andsvari sínu að við þurfum að hugsa um framtíðina og hvernig við komum út úr þessu því að á einhverjum tímapunkti mun þurfa að ná meira jafnvægi í ríkissjóði. Ég vil gera það þannig að við stöndum vörð um samfélagið okkar, um félagslegu kerfin okkar, um hið opinbera. Þess vegna tel ég einmitt að það skipti máli að við séum að beina fjármagninu eins markvisst og við mögulega getum og það er mjög líklegt að við lærum eitthvað á leiðinni um það hvernig eigi að stilla það nákvæmlega af. Það er, held ég, bara mjög eðlilegt. En ég tel að það sé einmitt verið að leggja áherslu á það að beina fjármununum eins markvisst og við mögulega getum og höfum þekkingu á akkúrat á þessum tímapunkti.