Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna ópíóíðafaraldurs.

[10:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að taka þetta mál hér upp. Við erum að skoða m.a. núna að setja Naloxone í lausasölu þó að það hafi ekki verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Við erum að skoða með sjúkrahúsinu Vogi að bæta við þjónustu, svokallaðri viðbragðsþjónustu, og auka samvinnu við Landspítalann um þá lífsbjargandi viðhaldsmeðferð sem er veitt. Við erum að skoða þetta aukna aðgengi. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á hér, hún nefnir þetta tiltekna lyf, Fentanyl. Ég er aðeins búinn að skoða dánarmeinaskrá og þessi ótímabæru dauðsföll og hvaða lyf það eru og já, það virðist vera í gangi og þetta eru gífurlega sterk og hættuleg lyf. Það er, eins og ég nefndi hér áðan, fjölmargt sem þarf að gera. Við þurfum líka að auka forvarnir og fræðslu og ná til þeirra félagasamtaka sem eru að vinna með fjölskyldum, veita aukinn stuðning við fjölskyldur. Við þurfum að koma á þessari viðbragðsþjónustu og auka aðgengi og svo þurfum við að horfa til þessara skaðaminnkandi úrræða, frekari klíník, neyslurými. Það er verið að vinna í fjölmörgum hlutum og ég mun bara á morgun koma með minnisblað inn í ríkisstjórn sem nær utan um alla þessa þætti og við getum farið hér sameiginlega í þetta verkefni.