Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

innlagnir og skaðaminnkun vegna ópíóíðafíknar.

[10:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. heilbrigðisráðherra. Það ríkir neyðarástand og það má orða það þannig að ef orðið hefði hópslys væri búið að virkja allar áætlanir, björgunaráætlanir, í stjórnkerfinu. Ég vona að það sé hægt að treysta því að tillögur sem hæstv. ráðherra leggur fyrir ríkisstjórnina, líklega á morgun, innihaldi konkret aðgerðir til skaðaminnkunar, lausasölu á Naloxon, eins og fram hefur komið, tillögur um neyslurými sem forvarnaúrræði og síðast en ekki síst aukin fjárframlög til Sjúkrahússins Vogs svo hægt sé að halda áfram að þjónusta þann mikla fjölda sjúklinga sem glímir við ópíóíðafíkn, af því að við vitum að ef það verður ekki gripið til þessara aðgerða strax þá mun fólk halda áfram að deyja.