Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

endurskoðendur og endurskoðun o.fl.

981. mál
[11:11]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun og lögum um ársreikninga á þskj. 1529, mál nr. 981. Í frumvarpinu er annars vegar að finna breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019, og hins vegar breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

Breytingarnar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er að finna ákvæði er lúta að endurskoðendaráði. Endurskoðendaráð skal bera ábyrgð á eftirfylgni með frammistöðu endurskoðendanefnda í samræmi við reglur ESB nr. 537/2014. Auk þess er lagt til að kveðið verði á um það í lögum að endurskoðendaráð sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd og að endurskoðendaráð hafi heimild til að ráða sér starfsmann til að geta sinnt skyldum sínum.

Í öðru lagi er að finna ákvæði er lúta að því að skýra betur stöðu siðareglna endurskoðenda og hvaða siðareglum endurskoðendum ber að fylgja. Sterk hefð er fyrir hugtakinu góð endurskoðunarvenja á Norðurlöndum og með lögum um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, er rennt styrkari stoðum undir það hugtak hér á landi.

Lagt er til í frumvarpinu að siðareglurnar verði settar undir hugtakið góð endurskoðunarvenja sem endurskoðendum ber að fylgja á hverjum tíma. Endurskoðendur skulu fylgja siðareglum alþjóðasamtaka endurskoðenda sem er yfirgripsmikil yfirlýsing um þau gildi og þær meginreglur sem ættu að vera til leiðbeiningar í daglegum störfum endurskoðenda til að viðhalda viðurkenndu verklagi endurskoðendastéttarinnar.

Samkvæmt frumvarpinu eru breytingarnar á lögum um ársreikninga einnig tvíþættar. Í fyrsta lagi lúta þær að því að innleiða ákvæði um endurskoðunarnefndir sem er að finna í tilskipun 2014/56/ESB og reglugerð Evrópusambandsins nr. 537/2014. Þar er að finna nánara ákvæði um tilnefningu nefndarmanna, hlutverk þeirra, undanþágu dótturfélags að vera með endurskoðendanefnd eigi móðurfélag 100% hlutafjár dótturfélagsins og eftirlitsskyldu endurskoðendaráðs með frammistöðu endurskoðunarnefndar.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar til einföldunar á stjórnsýsluframkvæmd mála þar sem lagðar hafa verið á stjórnvaldssektir vegna seinni skila ársreiknings eða samstæðureiknings félags.

Lagt er til að ákvarðanir ársreikningaskrár um álagningu stjórnvaldssekta vegna seinni skila ársreiknings séu endanlegar á stjórnsýslustigi en að í undantekningartilvikum geti ársreikningaskrá, berist beiðni frá skilaskyldum aðila, lækkað eða fellt niður stjórnvaldssekt hafi óviðráðanleg atvik sannarlega valdið því að félög hafi ekki staðið skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um.

Nauðsynlegt þykir að ársreikningaskrá geti tekið tillit til óvæntra eða sérstakra atvika eða aðstæðna sem kunna að koma upp í tengslum við álagningu stjórnvaldssekta.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.