Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[11:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á áðurnefndum lögum til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem fram komu í bráðabirgðaniðurstöðu stofnunarinnar í máli vegna kvörtunar sem beint hafði verið til ESA vegna veitingar rekstrarleyfa til bráðabirgða og veitingar tímabundinna undanþága frá starfsleyfi til reksturs fiskeldisstöðva og ítrekaðar voru í formlegu áminningarbréfi ESA, dags. 15. desember 2021.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar árétta sérstaklega:

Nefndin fjallaði um athugasemdir ESA og óskaði eftir upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um samskipti þess við stofnunina í tengslum við frumvarpið, með hvaða hætti ráðuneytið teldi sig vera að mæta athugasemdum ESA með frumvarpinu og hvort ESA hefði tjáð sig með einhverjum hætti við ráðuneytið um frumvarpið og þá sérstaklega varðandi það hvort stofnunin teldi það koma til móts við athugasemdir sínar. Nefndinni barst minnisblað frá ráðuneytinu þar sem m.a. kemur fram að ráðuneytið hafi haldið ESA upplýstri um stöðu og framgang frumvarpsins. Ráðuneytið hafi svarað formlegu áminningarbréf ESA með bréfi þann 24. janúar 2022 þar sem vísað var til frumvarpsins og helstu efnisatriði þess reifuð. Á árlegum pakkafundi ESA með íslenskum stjórnvöldum í júní 2022 hafi orðið nokkur efnisleg umræða um frumvarpið og yrði að mati ráðuneytisins ekki annað ráðið en að ESA hafi fallist á sjónarmið ráðuneytisins. Aðaláherslan hafi verið á að frumvarpið næði fram að ganga. Telur meiri hlutinn því ekki ástæðu til að ætla annað en að frumvarpið komi til móts við athugasemdir stofnunarinnar.

Fram komu athugasemdir um að hætta væri á því framkvæmdaaðilar skiluðu inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að fá leyfi til bráðabirgða án umhverfismats á grundvelli þessara ákvæða frumvarpsins og væri með frumvarpinu verið að útbúa leið fram hjá lögbundnu umhverfismati. Meiri hlutinn bendir á og gerir að sínum þau sjónarmið hvað þetta varðar sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins dags. 8. mars 2023 þar sem segir:

„Hvað matsskyldar framkvæmdir varðar tekur frumvarpið aðeins til tilvika þar sem leyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati. Það þýðir að viðkomandi starfsemi hefur hlotið leyfi á grundvelli umhverfismats að undangenginni lögbundinni málsmeðferð, að uppfylltum skilyrðum, þ.m.t. að umhverfismatið hafi farið í opið samráð og að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati viðkomandi framkvæmdar, en það leyfi síðan verið fellt úr gildi vegna tiltekinna annmarka. Verður því ekki fallist á að í því felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða.“

Meiri hlutinn áréttar að bráðabirgðaheimild 3. og 9. gr. frumvarpsins nær eingöngu til rekstraraðila sem farið hafa í gegnum lögbundið ferli og á einungis við í undantekningartilvikum þegar ríkar ástæður mæla með því, líkt og fram kemur í orðalagi framangreindra ákvæða frumvarpsins. Þannig er um að ræða undanþáguákvæði sem samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum ber að túlka þröngt. Þá er skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðaheimildar að bætt verði úr annmörkum umhverfismats á gildistíma leyfis til bráðabirgða samkvæmt a-lið 16. gr. frumvarpsins. Að auki er bent á að bráðabirgðaheimild 3. gr. frumvarpsins á ekki einungis við um tilvik á sviði fiskeldis heldur felur það í sér heimild sem tekur til allrar starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, m.a. starfsemi sem er ekki matsskyld.

Nefndin fjallaði að auki um aðkomu almennings að ferlinu en samkvæmt frumvarpinu er vikufrestur til að gera skriflegar athugasemdir. Fyrir nefndinni kom fram sú gagnrýni að fresturinn væri of stuttur. Að mati meiri hlutans er eðlilegt að tímafrestur til skila athugasemda sé styttri en hinn almenni athugasemdafrestur þegar um er að ræða bráðabirgðaleyfi enda á heimildin við um tilvik þar sem brýn þörf er á skjótri afgreiðslu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að endanleg leyfisveiting vegna starfsemi sem hlotið hefur bráðabirgðaheimild verður afgreidd að undangengnu samráðsferli við almenning og verður hún kæranleg eins og verið hefur. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að með frumvarpinu er heimild til að veita bráðabirgðaheimild færð úr höndum ráðherra til Umhverfisstofnunar hvað varðar lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og til Matvælastofnunar varðandi lög um fiskeldi og verður ákvörðun um veitingu undanþágu eða bráðabirgðaheimildar kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ólíkt því sem nú er. Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að ákvörðun um veitingu bráðabirgðaheimildar sæti endurskoðun en með þessari breytingu er aðkoma almennings aukin frá því sem áður var.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2023 en á fundum nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að gefa leyfisveitendum svigrúm til undirbúnings fyrir gildistöku laganna, m.a. til að yfirfara gjaldskrár og verkferla.

Þá eru lagðar til tvær lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar í áliti meiri hlutans.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Ingibjörg Isaksen, Orri Páll Jóhannsson og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Bjarni Jónsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. — Ég hef lokið máli mínu.