Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[11:22]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að það var ekki mjög auðvelt að kynna sér efni frumvarpsins. Þetta var svolítið mikið út um allt og vísað á alþingisvefinn, vísað í skjöl sem bendir til þess að ekki sé að finna tæmandi efni um lögin eins og þau liggja fyrir. En það hjálpaði heilmikið að geta kíkt á umsagnirnar um frumvarpið sem eru nokkuð skýrar og afdráttarlausar. Mig langaði að inna hv. þingmann eftir því hvort það sé raunverulega talið fullnægjandi að almenningur hafi viku til stefnu til að bregðast við og kæra. Það tekur bara heilmikinn tíma fyrir hinn almenna borgara að setja sig inn í þau efni sem gætu varðað slíka kæru. Það er ekkert hlaupið að því fyrir fólk sem almennt er ekki vant að lesa flókinn og tyrfinn lagatexta að kynna sér hvernig ætti að orða slíka kæru, hvernig ætti að leggja þetta fram þannig að almenningur geti haft einhver raunveruleg áhrif á slíka leyfisveitingu og hafi tækifæri til þess að vernda þarna réttindi sín vegna þess að hér er undir alveg gríðarlega mikilvægur mikilvægur hlutur, náttúra fjarðanna þar sem er verið að stunda sjókvíaeldi. Það eru mýmörg dæmi um að slíkt eldi hafi farið mjög illa með lífríki fjarðanna og þess vegna ætti að telja hagsmuni almennings býsna mikla og brýnt að tryggja að almenningur hafi tækifæri til þess að bregðast við.