Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:02]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er ekki fær leið að horfa fram hjá því. En til þess er nú þetta viðbragð með þessu frumvarpi sem við ræðum hér. Ég heyri að við erum sammála um það, og ég átti ekki von á öðru, að fullburða umhverfismat á auðvitað alltaf að vera grundvöllur ákvarðana. En ef hins vegar kemur í ljós að það er einhver annmarki þá þarf að bregðast við því. Annað sem mig langaði að koma inn á er aðkoma almennings vegna þess að ég og hv. þingmaður höfum þá sýn, og ég veit að við erum fleiri sem deilum henni, að aðkoma almennings sé ein mikilvægasta stoð umhverfisréttarins eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það. Við erum algjörlega sammála um það. Það hefur réttilega verið bent á og rætt hér fyrr í umræðum að vika til þess að koma með athugasemdir við útgáfu á bráðabirgðaleyfi eins og þetta frumvarp fjallar um sé hugsanlega of skammur tími. En mig langar að spyrja hv. þingmann þessu tengt. Nú er líka lagt til með frumvarpinu að heimildin til að veita bráðabirgðaleyfi eða bráðabirgðaheimild verði með þessu færð úr höndum ráðherrans og til hlutaðeigandi stofnana, Matvælastofnunar í grundvelli fiskeldislaganna og hins vegar Umhverfisstofnunar á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þessi tilfærsla þýðir að ákvörðun um veitingu undanþágu eða bráðabirgðaheimildar verður kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem er mjög mikilvægur vinkill til að styðja við þessa brýnu og nauðsynlegu aðkomu almennings í umhverfisrétti. Telur hv. þingmaður að þessi breyting sem er lögð fram í frumvarpinu, sem ég vil meina og við í meiri hlutanum að sé til þess að auka aðkomu almennings — þá er ég ekki að deila um vikufrestinn — sé til þess að auka aðkomu almennings að því að gera athugasemdir og þá í tilfelli veitingar bráðabirgðaleyfa?