Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vill ekki meina að hér sé verið að leggja til að það megi horfa fram hjá umhverfismati. Hér stendur dálítið hnífurinn í kúnni. Ég myndi segja: Jú víst. Við erum kannski bara ósammála um það. Ef það finnst annmarki í umhverfismatinu þá má bara ýta því til hliðar og segja: Við ætlum samt að gefa leyfi til bráðabirgða í eitt ár og svo má framlengja það um annað ár. (OPJ: Laga annmarka …) Þannig að í tvö ár má starfsemi vera í gangi án umhverfismats, það má horfa fram hjá því.

Varðandi það að heimildin sé færð frá ráðherra og verði þar með kæranleg þá er alveg hægt að taka undir þá röksemdafærslu meiri hlutans að þar með sé verið að auka aðkomu almennings frá því sem er í ákvæðinu sem var bætt inn 2018. Þetta er samt skref aftur á bak frá almennri kröfu um aðkomu almennings að ákvörðunum í umhverfismálum. Það að heimild sem er óæskilegt að hafa í lögum sé kæranleg til kærunefndar breytir því ekki að við ættum ekki að hafa þessa heimild í lögum. Það gerir heimildina ekkert skárri þó að það sé hægt að fara einhverja kærukróka í framhaldinu. Hún á einfaldlega ekki að vera til staðar. Það er náttúrlega markmiðið sem vantar að útlista í texta greinargerðar frumvarpsins, fyrir utan það að bregðast við áfellisdómi ESA: Til hvers þarf þessa heimild í lögin? Það er eitthvað sem við höfum ekki fengið skýrt fram.