Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég held að það sé mikilvægast að skoða heildarkerfið áður en við förum að segja að við þurfum meira af þessu eða meira af þessu. Og já, ég er hjartanlega sammála því að Vestfirðir og Norðausturland og fleiri staðir — ég meira að segja sendi í gær fyrirspurn um raforkuöryggi í mínu kjördæmi, uppi í Kjósarhreppi. Við þurfum að sjálfsögðu að horfa á raforkuöryggi um allt land og við þurfum að hugsa út fyrir boxið þar, ekki horfa og segja bara virkjanir eða bara þetta. Við þurfum að skoða hlutina betur en við erum að gera í dag. Við erum held ég öll, sérstaklega við stjórnmálamenn, of föst í því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í stað þess að hugsa: Hvernig gætum við gert þá ef við hugsuðum upp á nýtt?

Varðandi raforkunotkunina í skipum er það að sjálfsögðu mikill kostur ef bátar losna við að þurfa að nýta dísil og það er ódýrara í flestum tilfellum. Við sem keyrum um á rafmagnsbílum sjáum það bara. Stóra vandamálið við að keyra um á rafmagnsbílum í dag er það að ef ég ætla að keyra t.d. til Húsavíkur á eftir eða í sumar mun ég lendi í því að þurfa að bíða klukkutímum saman, ekki eftir að hlaða bílinn heldur að bíða eftir því að komast í hleðslu af því að það eru raðir alls staðar. Sama mun eiga við í höfnunum ef allir ætla að hlaða smábátana sína að nóttu til. Þetta þurfum við að hugsa um.