Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og þetta frumvarp. Ég hef haft miklar skoðanir á skipulagsvaldi sveitarfélaga, skipulagsreglugerðum og skipulagslögum, hafandi þurft að vinna með það og veit hvað það getur verið flókinn lagabálkur. Ég hef fullan skilning á því að við þurfum að bregðast við mjög sérstöku ástandi sem uppi er núna en hæstv. ráðherra kom inn á að það er gert ráð fyrir og það sé alveg á hreinu að sveitarfélögin geta hafnað þessu. Með öðrum orðum erum við að segja að þessar breytingar verði aldrei gerðar nema með vilja og vitund sveitarfélaga. Ég held að það sé algjört lykilatriði. Reyndar ætla ég þó að leyfa mér að benda á það að frestur sveitarfélags til að veita umsögn skal vera tvær vikur frá því að beiðni Skipulagsstofnunar berst sveitarfélaginu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin skoði að það sé tryggt. Ég átta mig á þörfinni fyrir að vinna hratt og vel, en það þarf að tryggja að svona hlutir geti ekki farið í gegn í sumarleyfum eða með einhverjum þannig hætti að sveitarstjórn sé ekki kunnugt um það og hafi ekki tækifæri til að móta sér skoðun, enda held ég að það fari alltaf best á því að ríki og sveitarfélög vinni saman í þessu.

Mig langar líka að benda á að hér er talað um að húsnæðið geti ekki verið á landnotkunarsvæðum sem eru skilgreind sem iðnaðarsvæði. Það er oft í máli manna og málskilningi manna að fólk heldur að iðnaðarsvæði séu þar sem atvinnulífið er en iðnaðarsvæði eru auðvitað samkvæmt skilgreiningum bara mengandi iðnaður; stóriðja, virkjanir og annað þess háttar. Það er auðvitað fjöldi af atvinnusvæðum eins og athafnasvæðum, held ég að það heiti í reglugerðinni, sem margir myndu halda að væru kölluð iðnaðarsvæði, þannig að við séum örugglega meðvituð um það. Þau svæði geta verið ýmiss konar og þess vegna vil ég ítreka mikilvægi þess að sveitarfélögin þurfi að koma að þessu.

Til að skella inn einni spurningu í lokin, um það sem við ætlum að gera þegar þessu lýkur: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að við munum leysa úr því í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, (Forseti hringir.) þegar stríðinu í Úkraínu er vonandi lokið og fjöldi þeirra sem hingað leita á flótta minnkar?