Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[14:59]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Mig langaði að koma hér aðeins upp og ræða um þetta ágæta mál sem hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og snýr að krókaaflamarksbátunum og orkuskiptum í sjávarútvegi. Orkuskipti í sjávarútveginum er nauðsynlegt verkefni og ég held að við séum öll sammála um það að við þurfum að fara í orkuskipti í sjávarútvegi alveg eins og við erum að gera með önnur farartæki, hvort sem það eru bílar eða flugvélar. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að geta verið að leggja hér fram og tala um frumvarp þar sem við hefjum þessa vegferð, þ.e. orkuskipti í krókaaflamarksbátum.

Mig langar í ekki löngu máli að ræða það sem hefur komið hér fram, m.a. í ræðu hér á undan, varðandi þessa 15 metra og brúttótonnin. Eins og framsögumaður kom inn á í sinni upphafsræðu, ágætu upphafsræðu, kom það mjög skýrt fram í máli þeirra sem komu fyrir nefndina og hafa með það að gera að hanna og smíða svona skip að lengdin ein og sér væri nægjanlegur rammi utan um stærð þessara skipa. Það skiptir gríðarlegu máli þegar menn eru að hanna þessi skip og þessa nýju orkugjafa, hverjir sem þeir verða, hvort sem það verður ammoníak, vetni eða rafmagn, að það þarf að vera pláss í skipunum til þess að koma þeim fyrir og um það snýst málið. Málið snýst um það að eins og þessir bátar eru í laginu og hver stærðartakmörkin á þeim eru í dag þá sjá menn ekki fyrir sér að það sé hægt að hanna þessi skip öðruvísi en að stækka þau. Það hefur líka verið rætt hér hvers lags skip þetta verða, hvernig þau verða í laginu og annað og hvort þetta verði góð sjóskip eða ekki. Við höfum séð hver þróunin hefur verið á síðustu árum og hvernig menn hafa verið að teygja sig með skipin út í þau mörk sem fyrir eru með alls konar viðbótum við skipin sem hafa gert þau, eftir því sem ég kemst næst, ekki að heimsins bestu sjóskipum. En það er einmitt út af þeim takmörkunum sem eru fyrir hendi í kerfinu. Það er það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir hér. Við viljum að skipin verði hönnuð þannig og það sé hægt að hanna þau með tilliti til þess orkugjafa sem er notaður og upp á sjólag þannig að skipið verði betri sjóskip og það fari betur um áhöfnina og síðast en ekki síst að öryggi þeirra sem vinna um borð verði tryggt. Þetta kom mjög skýrt fram í máli þeirra hönnuða sem komu fyrir nefndina og það var niðurstaða nefndarinnar og stórs meiri hluta hennar að menn skyldu ganga út frá þessum séríslensku brúttótonnum sem eru, eins og áður hefur komið fram, séríslensk og eru í raun og veru sett til þess að ramma inn ákveðið kerfi sem fyrir var. Það er mjög sérstakt í raun og veru að við séum hér á Íslandi með eitthvert sérstakt kerfi um brúttótonn sem hvergi er annars staðar.

Í nefndaráliti frá minni hluta atvinnuveganefndar, og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á það í sinni ágætu ræðu hér áðan, er fjallað um flutninginn á orku til hafna. Ég ætla bara að fá að taka aðeins undir þær áhyggjur sem þar koma fram. Hvort sem það er í orkuskiptum á sjó eða landi þá er alveg ljóst að við þurfum að gera töluvert átak til að ná á þann stað sem við þurfum að vera á og viljum vera á. Ég hef trú á því, nái þetta frumvarp fram að ganga og menn sjá sér hag í því að fara að breyta um orkugjafa sem klárlega er markmið frumvarpsins, að ýta við mönnum í þá átt, að það sé náttúrlega næsti fasi sem við þurfum að vera klár í: Hvernig ætlum við að rafvæða hafnir landsins og hvernig ætlum við að flytja orkuna á þá staði þar sem er lítið um hana eða nánast ekkert í dag? Það þurfum við að fara í, hvort sem við samþykkjum þetta frumvarp eða ekki, vegna þess að orkuskiptin munu kalla á stóraukna flutningsgetu á raforku hringinn í kringum landið og þar eru hafnirnar engin undantekning. Ég er alveg sannfærður um það, hafandi verið í sveitarstjórn árum saman, að sveitarstjórnir munu keppast við það að reyna að rafvæða sínar hafnir eins og kostur er, einfaldlega til þess að ná þessum bátum til sín. Ég held að það verði ekkert ókleifur veggur, langt í frá, að fara að rafvæða hafnir landsins.

Mig langaði bara að koma hingað upp og fara aðeins yfir þessa punkta hjá mér, sérstaklega varðandi stærðartakmörkin sem ég held að séu nauðsynleg til að við komum þessum orkuskiptum í gegn. Þau eru nauðsynleg fyrir verkefnið. Það var algerlega samdóma álit þeirra sem komu að það væri nægilegt að hafa lengdarmetrana sem mörk. Hitt myndi ekki skipta öllu máli. Ég hef ekki trú á því að þær útgerðir sem munu sjá sér leik á borði og vilja fara í þetta verkefni, að breyta um orkugjafa í sínum skipum, muni hanna þau með þeim hætti að þau verði ekki sjófær eða haldi ekki nægilega vel utan um þá sem þar vinna.