Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[15:12]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef krafan verður sú að fara að lengja þessa báta umfram það sem kemur fram hér, umfram 15 metra, þá kemur það væntanlega hér til þingsins og atvinnuveganefndar. Það er ekki gert öðruvísi. Ég sé í dag engin tilefni til þess að við séum eitthvað að fara í þá vegferð. Ég held að þetta sé alveg yfirdrifið nóg, þessi breyting. Ég er ekki að tala fyrir því að þessir bátar verði lengdir, hef aldrei gert það. Ég hef hins vegar talað fyrir því að það verði gefin heimild til að auka þessa brúttótonnatölu á þessum bátum þannig að hönnuðirnir hafi einfaldlega meira svigrúm og það svigrúm sem þeir þurfa til þess að það sé hægt að breyta um orkugjafa í þessum skipum. Það er það sem ég hef verið að segja. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá er það bara illgerlegt í dag öðruvísi en að fara að setja einhverja tanka ofan á skipin eða utan á þau sem gera þau að enn þá verri skipum til veiða og fara enn þá verr með mannskapinn fyrir utan þá öryggishagsmuni sem þar eru undir vegna þess að við vitum alveg hvernig t.d. vetni og ammoníak er varðandi eldhættu. Það þarf að horfa á þessa þætti og það eru þessir þættir sem við erum að reyna að grípa.

Aðeins varðandi samfélagsþáttinn, hvort ég hafi áhyggjur af honum. Ég held að við höfum alltaf áhyggjur af samfélagsþættinum. Við sem komum utan af landi höfum einfaldlega alltaf áhyggjur af þessum samfélagsþætti, byggðaþættinum, byggðamálunum. Ég hef áhyggjur af því. Ég hef lýst margsinnis á þingi áhyggjum mínum út af því. Ég sé hins vegar ekki þetta frumvarp sömu dökku litunum og hv. þingmaður. Ég deili ekki hennar áhyggjum hvað það varðar.