Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, aflvísir. Með þessu frumvarpi er lagt til að viðmið núgildandi laga um aflvísa verði fellt brott úr 5. og 6. gr. laganna. Markmiðið með því er að skapa hvata fyrir útgerðir til að endurnýja eða endurbæta skipakost sinn með umhverfisvænni skipum sem hafa stærri og hæggengari skrúfur. Samkvæmt frumvarpshöfundum kann samdrátturinn í olíunotkun að verða allt að 50%. Það komu fram fyrir nefndinni sjónarmið um að með því að fjarlægja aflvísisviðmið úr lögum yrði stærri bátum og skipum heimiluð veiði innan 12 mílna. Þá komu einnig fram sjónarmið um að stærri skrúfa gæti haft áhrif á losun kolefnis úr sjávarbotni. Vegna þessa er áréttað í áliti meiri hlutans að með frumvarpinu sé ekki stefnt að því að breyta þeim veiðarfærum sem heimilt er að nota innan 12 mílna. Þá kemur fram í ítarlegu minnisblaði matvælaráðuneytisins að stærð skrúfu hafi ekki áhrif á losun kolefnis frá hafsbotni.

Hvað þessi sjónarmið varðar vil ég segja að hér á landi hafa ríflega 1.350 skip veiðileyfi, 1.100 þeirra lönduðu afla á síðasta ári, og það er því til mikils að vinna með frekari orkusparnaði sem við teljum að hægt sé að ná fram með þessum breytingum. Í þessu sama minnisblaði matvælaráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að meginþorri þessara skipa getur núna stundað veiðar fyrir innan og utan viðmiðunarlínu með mismunandi takmörkunum. Ég vil í þessu samhengi benda á 5. gr. laga um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem settar eru takmarkanir á veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í landhelginni, takmarkanir sem lúta að veiðisvæðum og þeim tíma sem veiðar mega fara fram. Sömuleiðis eru ýmsar takmarkanir settar um stærð og gerð veiðarfæra sem dregin eru eftir hafsbotni í tilhlýðandi reglugerðum um hverjar veiðar fyrir sig. Við getum til að mynda nefnt viðurlög við plógum sem eru umfram stærðarviðmið í reglugerð um veiðar á ígulkerjum.

Virðulegi forseti. Hvað togskip varðar þá held ég að mikilvægt sé að taka það fram hér að það eru örfáar undantekningar. Almennt mega togskip ekki veiða innan viðmiðunarlínu. Þær undantekningar sem hér eru undir útfærast þá miðað við stærð skipanna. Mér finnst mikilvægt að árétta að engin skip fá með þessum breytingum aðgang að veiðum innan viðmiðunarlínu. Vísað er til þess í nefndaráliti meiri hlutans að samkvæmt greinargerð frumvarpsins fer nú fram yfirgripsmikil vinna við að skilgreina viðkvæm hafsvæði og botnvistkerfi sem njóta eiga verndar gagnvart veiðarfærum sem snerta botninn. Ég vil þó koma því á framfæri að í tillögu átta í Auðlindinni okkar er lagt til að miða veiðar á ákveðnum tegundum á tilteknum svæðum frekar við stærð veiðarfæra en stærð skipa. Ég tek undir þessi sjónarmið. Við ræddum talsvert í nefndinni að það ætti ekki að vera stærð skipa í sjálfu sér sem réði því hvar og hvernig væri veitt heldur einmitt veiðarfærin sjálf.

Af því að hér er verið að vitna til þess að það eru rannsóknir á áhrifum á hafsvæði utan 12 mílnanna þá hef ég trú á því og það hefur komið fram, ráðherra hefur rætt um það, að það verði einnig gert innan þeirra sem er mjög mikilvægt. Ég held að það geti orðið bara samhliða þessu og þurfi ekkert sérstaklega að bíða eftir því. Við veitum talsvert miklum fjármunum til hafrannsókna og Hafrannsóknastofnunar sem einmitt eiga að fara í að rannsaka lífríkið og vistkerfi hafsins og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert. Þetta er, eins og við höfum verið að ræða hér, eitt af þessum málum sem nefndin fjallar um á þessu þingi sem varðar orkuskiptin í sjávarútvegi og grænu skrefin sem við höfum ákveðið að stíga til að ná fram þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér og sem ég tel mikilvæg.

Ég geri sannarlega ekki lítið úr áhyggjum af áhrifum veiðarfæra á vistkerfi, hvorki áður né nú, en allt sem kom fram meira og minna og rökstuðningur sem við fengum var að þrátt fyrir að skrúfan væri aflmeiri þá þýddi það ekki endilega neikvæð áhrif og eiginlega síst á lífríkið, vegna þess að það væri minni hætta á því að það væri mar á fiskinum, það færi betur um hann ef það væru tvö troll frekar en eitt. Ég held að við þurfum að taka mark á þeim stofnunum sem við treystum til þess að fara með þessi mál. Við fengum svör og við getum ekki haft mjög valkvætt, finnst mér, hvenær við tökum mark á því sem sérfræðingarnir segja okkur og hvenær ekki. En sannarlega skortir okkur gríðarlega mikið rannsóknir bara almennt í hafinu og ég held að við séum öll sammála um að það sé eitthvað sem við þurfum að auka. Það kom fram við þessa umræðu að þegar verið væri að tvöfalda afköstin í færri veiðiferðum gæti það sparað allt að 30% af olíunotkun. Það var talað um það líka að þegar troll eru dregin styttra eftir hafsbotninum þá hafi þau minni áhrif og svo, eins og ég sagði áðan, að það eru aukin gæði fisksins sem talað er um þegar notuð eru fleiri en eitt troll.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga og geri ráð fyrir umræðu um þetta mál af hálfu þingmanna, bæði í minni hluta og í meiri hluta.